Fréttasafn



2. júl. 2025 Almennar fréttir Menntun

Brýnt að framkvæmdir við VMA hefjist sem fyrst

Fulltrúi SI, Hulda Birna Kjærnested, sérfræðingur í mennta- og mannauðsmálum hjá SI, heimsótti nýverið Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) þar sem hún fundaði með Sigríði Huldu Jónsdóttur, skólameistara sem er að ljúka störfum eftir farsælan feril. Á fundinum ræddu þær um sögu skólans og þá áskorun sem VMA stendur frammi fyrir hvað varðar húsnæðismál, tækjabúnað og þörfina fyrir kennara í iðngreinum. Í samtali þeirra kom fram að stækkun við skólann væri ekki langt komin en ánægjulegt væri að fjármunir hafi verið tryggðir til verkefnisins og að brýnt væri að framkvæmdir hefjist sem fyrst.

Mikil eftirspurn eftir iðnnámi

Þær Hulda Birna og Sigríður Huld ræddu jafnframt um þróun iðnnáms og hvernig aðrar þjóðir sinna jafnt iðn-, tækni- og bóknámi. Hulda Birna segir að á fundi þeirra hafi komið fram að víða erlendis sé lögð áhersla á að nemendur velji sér fyrst og fremst nám fremur en tiltekinn skóla. Á Íslandi sé eftirspurn eftir skólaplássum í iðnnámi umfram framboð sem undirstriki mikilvægi þess að bæta aðstöðu og tryggja nægilegt framboð af kennurum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir og Hulda Birna Kjærnested.