Fréttasafn



19. maí 2022 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun Starfsumhverfi

Brýnt efnahagsmál að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga

„Staðreyndin er sú að við erum í alþjóðlegri samkeppni um hæfileikaríkt fólk. Til að standa undir öflugu atvinnulífi. Við verðum að bregðast hratt við og liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins. Þetta er gríðarlega brýnt efnahagsmál.“ segir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, í forsíðufrétt Fréttablaðsins. Í fréttinni kemur fram að fyrirtæki í hugverkaiðnaði séu þegar farin að færa starfsemi sína úr landi vegna þess hve erfitt reynist að ráða sérfræðinga. Sagt er frá hugverkafyrirtækinu Controlant sem sér fram á að færa hluta kjarnastarfseminnar úr landi vegna skorts á sérfræðingum en starfsfólki fyrirtækisins hefur fjölgað úr 50 í 370 á síðustu tveimur árum.

Sigríður segir í Fréttablaðinu heyra slíkar sögur nær daglega frá fyrirtækjum í hugverkaiðnaði. Nokkur fyrirtæki hafi þegar fært sig út til Evrópu af sömu ástæðu. „Við höfum verið að vekja athygli stjórnvalda á stöðunni. Þetta er að gerast mjög hratt um þessar mundir.“ 

Þá kemur fram að það sé mat Sigríðar að þetta sé fyrst og fremst lúxusvandamál og tækifæri. Hún segist binda vonir við nýjan iðnaðarráðherra. „En það eru mörg ljón í veginum og kerfið hér á landi er enn allt of flókið.“ Í fréttinni segir að hugverkafyrirtæki muni leita út fyrir landsteinana í ríkari mæli ef stjórnvöld grípa ekki til markvissra aðgerða. „Við þurfum að bregðast við og grípa þessi vaxtartækifæri,“ segir Sigríður í Fréttablaðinu.

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 19. maí 2022.

Frettabladid-19-05-2022