Fréttasafn28. okt. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Iðnaður og hugverk Orka og umhverfi

Búa þarf til meiri raforku ef markmið eiga að nást

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, segir i viðtali Sveins Ólafs Melsted í Viðskiptablaðinu að það sé ljóst að búa þurfi til meiri raforku hér á landi ef markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi eigi að nást. Sigríður segir umræðu um orkuskipti í flugi ekki vera framtíðarmúsík, þar sem uppbygging raforkukerfisins taki langan tíma. Mikilvægt sé að orkan sé til staðar þegar tæknin verður tilbúin. Sigríður telur hugmyndir um lagningu sæstrengs frá Íslandi á meginland Evrópu óraunhæfar, þar sem Ísland þurfi á allri eigin raforku að halda.

Lykilatriði að umræðan sé byggð á staðreyndum

Sigríður segir í viðtali Viðskiptablaðsins að fólk hafi misjafnar skoðanir á flestu sem viðkemur orkumálum en það sé lykilatriði að umræðan sé byggð á staðreyndum og þess vegna meðal annars hafi vefurinn orkuskipti.is verið opnaður. „Það þarf að afla meiri orku á Íslandi ef við ætlum að tryggja orkuskipti og huga að orkuöryggi og sjálfstæði Íslands. Það skiptir máli að við séum ekki bara að skipta út olíu fyrir aðra innflutta orkugjafa, heldur að við séum sjálfum okkur næg með því að framleiða orku hér innanlands til þess að knýja samfélagið allt. Í dag er langt þar á milli, þ.e.a.s. orkuframleiðsla á Íslandi dugar ekki fyrir orkunotkun samfélagsins og hagkerfisins.“ 

Liggur á að hefja framkvæmdir þar sem uppbygging raforkukerfa tekur fjölmörg ár

Sigríður segir í viðtali Viðskiptablaðsins að hver sem niðurstaðan verður um hve mikið þurfi að auka raforkuframleiðslu landsins, liggi á að hefja framkvæmdir þar sem uppbygging í raforkukerfinu taki fjölmörg ár. „Þegar sem dæmi er talað um orkuskipti í flugi sem framtíðarmúsík þá mótmæli ég þeirri staðhæfingu og segi: framtíðin er núna og við þurfum að hefja undirbúning orkuskipta strax. Við þurfum að vera tilbúin með orkuna þegar tæknin í fluginu verður tilbúin.“ 

Skipta á út olíu fyrir græna orku

Í viðtalinu við Sigríði kemur fram að yfirvofandi orkuskipti séu ekki þau fyrstu í sögu Íslands. „Við höfum gert þetta áður með mjög góðum árangri. Framundan eru þriðju orkuskiptin. Það er áhugavert að rýna söguna í því samhengi að hitaveituvæðing landsins var ekki átakalaus. En í dag held ég að flestir Íslendingar séu sammála um að þetta hafi verið mikið gæfuspor. Orkukrísan sem geisar nú á meginlandi Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem Ísland er að mestu leyti í skjóli fyrir, staðfestir þetta enn og aftur. Við þurfum einnig að hafa það í huga að allar þjóðir í kringum okkur hafa skuldbundið sig til að draga úr losun samkvæmt Parísarsáttmálanum og stefna einnig á að skipta út olíu fyrir græna orku.“

Viðskiptablaðið, 26. október 2022.

Vb.is, 28. október 2022.

Vb.is, 29. október 2022.

Vb.is, 30. október 2022.

Vidskiptabladid-26-10-2022_1Vidskiptabladid-26-10-2022_2