Fréttasafn



26. jan. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Búist við hátt í 400 gestum á Degi prents og miðlunar á morgun

Dagur prents og miðlunar verður haldinn hátíðlegur þriðja árið í röð á föstudaginn næstkomandi 27. janúar að Vatnagörðum 20 í Reykjavík. Það er fjöldi fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum sem tilheyra prent- og miðlunargreinum hér á landi. Um 1.500 starfsmenn eru starfandi í greininni sem telur prentsmiðjur, auglýsingastofur og fjölda smærri fyrirtækja sem velta samtals um 30 milljörðum króna á ári.

Boðið verður upp á veglega dagskrá með 20 fyrirlestrum sem tilheyra þremur mismunandi fyrirlestralínum. Meðal fyrirlesara er rithöfundurinn Þórarinn Eldjárn sem ætlar að segja frá reynslu sinni af því að vera höfundur í prentsmiðju, Árni Matthíasson hjá mbl.is ætlar að fjalla um Facebook og lýðræðið og Hringur Hafsteinsson, sköpunarstjóri margmiðlunarfyrirtækisins Gagarín, ætlar að tala um margmiðlun en Gagarín er leiðandi fyrirtæki á sviði gagnvirkrar hönnunar og miðlunar. Í lok fyrirlestrardagskrár ætlar Tryggvi Thayer, verkefnisstjóri Menntamiðju á menntavísindasviði HÍ, að horfa til framtíðar og spá fyrir um hver staðan verður árið 2027 en tækniþróun næstu áratuga stefnir að því að afmá mörkin milli þess stafræna og þess raunverulega í umhverfinu sem leiðir til þess að tengsl einstaklinga við umhverfið breytist hratt.

Ingi Rafn Ólafsson, sviðsstjóri prent- og miðlunarsviðs IÐUNNAR fræðsluseturs, segir Dag prents og miðlunar mikilvægan fyrir starfsgreinina. „Markmiðið með degi sem þessum er fyrst og fremst að stuðla að fræðslu fyrir starfsfólk í prent- og miðlunargreinum. Þetta er því nokkurs konar uppskeruhátíð þar sem við setjum saman áhugaverða dagskrá sem flestir í greininni eiga að geta tengt við sín störf. Í fyrra fengum við hátt í 400 gesti og eigum von á öðru eins núna.“

Dagskráin hefst kl. 15.00 og stendur til kl. 20.00 en í lok fyrirlestra verður boðið upp á innlegg frá Ara Eldjárn, léttar veitingar og tónlist. Auk þess verða birgjar starfsgreinarinnar á staðnum að kynna vörur sínar og þjónustu.

Nánar um dagskránna. Nánar um fyrirlesara