BusinessEurope undirstrikar mikilvægi EES EFTA-ríkjanna
Samtök iðnaðarins eru aðili að BusinessEurope, sem eru leiðandi hagsmunasamtök evrópskra atvinnurekenda. Mikil vinna hefur verið lögð í kortlagningu á hagsmunum evrópskra fyrirtækja og áhrifa vegna tollahækkana í Bandaríkjunum. Nýlega gáfu Business Europe út skýrslu, EU-U.S. Relations - Buisness - Views on the Way Forward, sem fjallar um afstöðu samtakanna til viðskiptasambands ESB og Bandaríkjanna, áherslur og væntingar til framtíðar.
Helstu atriði úr skýrslunni eru eftirfarandi:
-
Efla þarf og tryggja samskipti á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og styðja þannig við vöxt beggja megin við Atlantshafið.
-
Sporna gegn viðskiptahindrunum og lækka kostnað vegna viðskipta yfir Atlantshafið.
-
Lagst er gegn því að settir verði viðbótartollar á vörur beggja aðila en slík þróun skaðar fyrirtæki og kemur ekki síst niður á neytendum.
-
Ákall um aukna samvinnu á sviði tæknilausna og að stofnaður verði vettvangur fyrir samstarf þar sem m.a. sameiginlegt mat á regluverki milli svæða fari fram.
Samtök iðnaðarins taka undir með norsku systursamtökum sínum, NHO, að afar ánægjulegt sé að í skýrslunni sé kveðið á um að EES EFTA-ríkin séu hluti af innri markaði ESB og virðiskeðjunni. Einnig að mikilvægt sé að Evrópusambandið og Bandaríkin líti til þessa til að tryggja einsleitni á innri markaðinum.
Í því samhengi segir meðal annars í skýrslu BusinessEurope: „When considering solutions between the EU and the U.S., both parties should take into account the close integration of some neighbouring countries in transatlantic value chains. This is particularly important to ensure the integrity of the internal market, including in the EEA EFTA States.“
Hér er hægt að nálgast skýrslu BusinessEurope.