Fréttasafn



13. des. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Byggja þarf fleiri íbúðir til að mæta þörfum

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI í ViðskiptaMogganum sem segir að grunnvandinn á íbúðamarkaði liggi í því að byggja þurfi fleiri íbúðir og lausnin sé að byggja meira. „Byggja þarf fleiri íbúðir og skapa góða umgjörð íbúðauppbyggingar um land allt til að mæta fjölbreyttum þörfum almennings og atvinnulífs. Leggja þarf áherslu á fjölbreytta uppbyggingu íbúða af ólíkum stærðum og gerðum, íbúðir um land allt, íbúðir fyrir ólíka tekjuhópa. Forgangsraða þarf uppbyggingu innviða í þágu nýrra uppbyggingarsvæða á íbúðarhúsnæði.“

Skortur á lóðum er áhyggjuefni

Ingólfur segir einnig að skortur á lóðum sé áhyggjuefni. „Mikil eftirspurn er eftir lóðum á sama tíma og íbúðamarkaður hefur kólnað og skýr merki eru um samdrátt á byggingarmarkaði. Þetta er vegna þess að byggingarréttur er af skornum skammti.“

Mikill samdráttur í fjölda nýrra framkvæmda

Þá segir Ingólfur í ViðskiptaMogganum að íbúðum sem koma fullbúnar inn á markaðinn muni að öllum líkindum fækka fram á næsta ár. „Mikill samdráttur er í fjölda nýrra framkvæmda um þessar mundir. Mikill samdráttur mældist t.d. í fjölda nýrra framkvæmda í talningu HMS á íbúðum í byggingu nú í haust og nam samdrátturinn um 68% á milli ára. Það er í samræmi við könnun sem SI gerðu meðal verktaka sem voru að byggja á eigin reikning í upphafi árs. Fleiri íbúðir eru nú stopp í byggingarferlinu.“

Skiptir mestu að skapa stöðugleika á íbúðamarkaði

Einnig segir Ingólfur að 25% hækkun sé ekki merki um þann stöðugleika sem SI vilji sjá. „Það skiptir höfuðmáli að skapa stöðugleika á þessum markaði. Til þess að svo megi verða þarf að takast vel til að byggja upp húsnæði í samræmi við þarfir landsmanna. Afleiðing þess að við náum ekki að byggja húsnæði í takt við þörf er m.a. mikill húsnæðiskostnaður, aukin verðbólga, háir vextir og óstöðugleiki í íslensku efnahagslífi og ekki síst á vinnumarkaði. Er því til mikils að vinna að ryðja hindrunum úr vegi, marka sameiginlega stefnu um uppbyggingu húsnæðis og tryggja nægt framboð í takt við þarfir landsmanna.“

Í umfjöllun ViðskiptaMoggans er einnig rætt við Magnús Árna Skúlason, framkvæmdastjóra Reykjavík Economics, og Bergþóru Baldursdóttur, hagfræðing hjá Greiningu Íslandsbanka.

ViðskiptaMogginn, 13. desember 2023.

mbl.is, 13. desember 2023.