Fréttasafn



27. sep. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

CCP þjónustar fleiri viðskiptavini en fjöldi allra landsmanna

CCP þjónustar fleiri viðskiptavini en sem nemur öllum Íslendingum í hverjum mánuði. EVE Online hefur á 15 árum aflað meira en 700 milljóna dollara í erlendum gjaldeyri beint inn í íslenskt hagkerfi eða 77 milljarða kr. m.v. gengi dagsins í dag. Bent hefur verið á að þetta sé ein besta ávöxtun á kílóvattstund sem finnst í hagkerfinu þar sem framleiðsla leiksins gengur að mjög takmörkuðu leyti á endanlegar náttúruauðlindir og byggir þekkingarmargfaldara á meðan. CCP hefur einnig reynst mikil landkynning fyrir Ísland enda er leikurinn vel þekktur í tölvuleikjaiðnaðinum sem er orðinn stærri en kvikmyndaiðnaðurinn og tónlistariðnaðurinn til samans. Þetta kemur meðal annars fram í grein Tryggva Hjaltasonar, starfsmanns CCP og formanns Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins, í Morgunblaðinu í dag. 

Í grein sinni rekur Tryggvi sögu CCP sem var nýlega selt fyrir 46 milljarða króna. Hann segir að til að setja kaupverðið í samhengi væri hægt að kaupa 900 glænýjar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu fyrir þessa upphæð eða 20 nýja togara í flotann en salan er sú stærsta á hátæknifyrirtæki í sögu Íslands. 

EVE Online talið vera eftirlíking af hagkerfum

Þá segir hann að hagkerfið í EVE Online sé talið vera algjör fjársjóðskista af gögnum og fær CCP í hverri viku beiðnir frá helstu rannsóknarstofnunum heims, líkt og Oxford og Harvard, um að komast í gagnasettið til að gera rannsóknir sem varða hegðun, hagrannsóknir, markaðsrannsóknir eða félagsvísindarannsóknir. Ástæðan fyrir þessum ítrekuðu beiðnum sé að EVE Online er talið vera gríðarlega skilvirk eftirlíking af raunhagkerfum vegna þess frelsis sem leikmenn fá í leiknum til að taka ákvarðanir og byggja upp verðmæti og mynda samstarfseiningar. 

Stuðla þarf að öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi á Íslandi

Í niðurlagi greinar sinnar segist Tryggvi vilja að sonur sinn sem er sjö ára hafi fjölbreytt val um spennandi alþjóðleg störf á Íslandi þegar hann vex úr grasi. Til þess að það geti gerst þurfi að stuðla að uppbyggingu á öflugu rannsóknar- og þróunarstarfi á Íslandi og efla menntun á sviði hátækni og hugverka en slíkt sé hagur allra Íslendinga. „Tryggjum saman að það verði til fleiri fyrirtæki eins og CCP á Íslandi og að þau geti vaxið og dafnað hér.“

Í Morgunblaðinu er hægt að lesa greinina í heild sinni.