Fréttasafn



15. nóv. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Colas og Hafnarfjarðarbær með nýtt umhverfisvænt malbik

Colas Ísland sem er aðildarfyrirtæki SI í samstarfi við móðurfélag sitt tekur þátt í rannsóknarverkefni sem framkvæmt er víða um heim um þessar mundir. Verkefnið felst í að blanda lífrænu efni, PTO, sem er hliðarafurð úr pappírsvinnslu út í hefðbundið stungubik sem notað er til blöndunar á malbiki meðal annars á Íslandi.

Á vef Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að bærinn taki þátt í þessu tímamótaverkefni á Íslandi með Colas og hafi malbik með umræddu bindiefni verið framleitt og lagt út á nýjan göngustíg við Ásvallabraut í Hafnarfirði. Á vefnum kemur fram að vonir standi til að í framtíðinni aukist notkun bindiefnis sem innihaldi PTO í malbiksframleiðslu og sé það mikilvægur þáttur í baráttunni við losun kolefnis út í umhverfið. Samhliða því að auka notkun á endurunnu malbiki í nýtt malbik stígi malbiksiðnaðurinn stórt skref í átt að markmiði sínu um 30% minnkun losunar á CO2 fyrir árið 2030.

Á vef Hafnarfjarðarbæjar er hægt að nálgast frekari upplýsingar.