Fréttasafn26. sep. 2017 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Costco fundar með íslenskum framleiðendum í nóvember

„Þetta voru ánægjulegir fundir og ljóst að Costco leggur mikla áherslu á að kaupa inn gæðavörur á góðu verði. Því ættu íslenskir framleiðendur að eiga samleið með þeirri innkaupastefnu,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í framhaldi af tveimur fundum sem samtökin efndu til með fulltrúum Costco. Fyrri fundurinn var haldinn á skrifstofu SI með framkvæmdastjóra Costco á Íslandi, Brett Vigelskas. Síðari fundurinn var haldinn í verslun Costco í Garðabænum með innkaupafólki Costco, þeim Suzanne Whittingham og Steve Barnett. Niðurstaða fundanna var að efna til samtals milli Costco og íslenskra framleiðenda í byrjun nóvember þar sem fulltrúar Costco munu segja frá innkaupastefnu sinni og hverjar áherslurnar eru í starfseminni. 

Costco hefur á síðastliðnum mánuðum haft ýmis áhrif á íslenskt atvinnulíf og þar á meðal íslenska framleiðendur. Umfang starfseminnar er mikil á alþjóðavettvangi en Costco rekur 741 vöruhús í 11 löndum með 214 þúsund starfsmönnum. Í Costco í Garðabænum eru nú þegar seldar vörur frá íslenskum framleiðendum, þar á meðal er kjötvara, mjólkurvara, brauð og sælgæti.

Efri myndin er tekin á fundinum á skrifstofu SI í Borgartúni, talið frá vinstri: Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, Brett Vigelskas hjá Costco, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ragnheiður Héðinsdóttir, viðskiptastjóri matvælaiðnaðar hjá SI.

Neðri myndin er frá fundinum í Costco, talið frá vinstri: Suzanne Whittingham hjá Costco, Bryndís Skúladóttir, sviðsstjóri framleiðslusviðs SI, Steve Barnett hjá Costco, Ragnheiður Héðinsdóttir, viðskiptastjóri matvælaiðnaðar hjá SI, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI.

Costco-19.sept.2017