Fréttasafn



7. maí 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Starfsumhverfi

COVID-19 hefur mikil neikvæð áhrif á rekstur iðnfyrirtækja

Niðurstöður nýrrar könnunar sem Outcome framkvæmdi fyrir Samtök iðnaðarins meðal stjórnenda íslenskra iðnfyrirtækja sem eru aðilar að samtökunum gefa til kynna að COVID-19 veiran muni hafa mikil neikvæð áhrif á rekstur iðnfyrirtækja. Stjórnendur fyrirtækjanna vænta umtalsverðs samdráttar í tekjum út árið. Einnig sýna niðurstöðurnar að fyrirtækin sjá fram á umtalsverða fækkun starfsfólks allt fram á næsta ár. Meirihluti stjórnenda iðnfyrirtækja meta aðstæður í efnahagslífinu slæmar fyrir þeirra fyrirtæki og fleiri telja að þær muni versna litið til næstu tólf mánaða en þeir sem telja að þær muni batna. Niðurstöðurnar bera merki um þau neikvæðu áhrif sem COVID-19 faraldurinn er að hafa á starfsemi iðnfyrirtækja um þessar mundir. Þetta kemur fram í greiningu SI um helstu niðurstöður könnunarinnar sem framkvæmd var 14.-26. apríl.

Konnun-felagsmenn-1

Stjórnendur iðnfyrirtækjanna voru spurðir að því hvernig þeir meti aðstæður í efnahagslífinu á Íslandi fyrir þeirra fyrirtæki. Telja tæplega 52% þeirra að þær séu slæmar og hefur það hlutfall ekki verið hærra síðan Samtök iðnaðarins hófu að kanna afstöðu stjórnenda iðnfyrirtækja til þessa í apríl 2014. Hækkar hlutfallið umtalsvert á milli ára en í apríl í fyrra töldu 22% aðstæður slæmar. Að sama skapi lækkar hlutfall þeirra sem telja að aðstæður séu góðar en ekki nema 24% telja að þær séu góðar og hefur það hlutfall ekki verið lægra síðan 2014.

Aldrei fleiri sem telja aðstæður í efnahagslífinu verri horft til næstu 6-12 mánaða

Stjórnendur iðnfyrirtækjanna voru spurðir að því ef þeir horfa 6-12 mánuði fram í tímann, hvernig þeir meti aðstæður í efnahagslífinu fyrir þeirra fyrirtæki m.v. aðstæður í dag. Niðurstöðurnar sýna að 48% telja að þær verði verri en ekki nema 26% að þær verði betri. Talsvert stærri hluti stjórnenda iðnfyrirtækja telja að aðstæður verði verri en fyrir ári en í apríl í fyrra sögðust 32% telja að aðstæður yrðu verri eftir 6-12 mánuði. 

Konnun-felagsmenn-2

68% segja áhrif COVID-19 mikil

Af niðurstöðunum að dæma hefur COVID-19 umtalsverð neikvæð áhrif á rekstur iðnfyrirtækja. Stjórnendur voru spurðir að því hversu mikil neikvæð áhrif þeir telji að COVID-19 muni hafa á rekstur þeirra fyrirtækja. Sögðu 68% stjórnenda að COVID-19 hefði mjög eða nokkuð mikil neikvæð áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja. 21% stjórnenda telja að neikvæð áhrif veirunnar verði nokkuð eða mjög lítil á rekstur þeirra fyrirtækja.  

Konnnun-felagsmenn-3

 

Flestir vænta samdráttar í tekjum út árið

Flestir stjórnendur iðnfyrirtækja vænta samdráttar í tekjum út allt þetta ár. Þeir voru spurðir að því hvernig þeir teldu að tekjur þeirra fyrirtækja yrðu á 2.-4. ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama ársfjórðung í fyrra. 59% segja að tekjur muni dragast saman á 2. fjórðungi en ekki nema 11% að þær muni aukast á þeim fjórðungi. Myndin verður aðeins bjartari eftir því sem líður á árið en segja má að það sé eftirtektarvert hvað það er lítið en 56% vænta samdráttar á 3. ársfjórðungi og 53% á 4. fjórðungi. Á móti reikna 15% með aukningu tekna á 3. og 4. ársfjórðungi frá sama ársfjórðungi í fyrra.  

Konnun-felagsmenn-4

Mæta samdrætti með fækkun starfsfólks

Ljóst er að iðnfyrirtæki mæta samdrættinum með hagræðingu. Reikna 35% stjórnenda iðnfyrirtækja með því að starfsmenn verði færri á 2. ársfjórðungi í ár en í sama ársfjórðungi í fyrra. Hlutfallið lækkar lítillega þegar spurt er um 3. ársfjórðung en þá vænta 32% stjórnenda þess að starfsmönnum fækki frá sama ársfjórðungi í fyrra. Sama hlutfall væntir síðan fækkunar á 4. fjórðungi.  

Konnun-felagsmenn-5

 

Þegar stjórnendur iðnfyrirtækja voru spurðir að því hvernig horfði með fjölda starfsmanna í þeirra fyrirtækjum litið 12 mánuði fram í tímann svöruðu ríflega 37% að þeim myndi fækka en ekki nema 14% að þeim myndi fjölga. Bendir það enn frekar til þess að stjórnendur iðnfyrirtækja eru ekki að sjá fyrir sér snarpan viðsnúning í þeirra rekstri litið fram á apríl á næsta ári a.m.k.

Konnun-felagsmenn-6


Stöðugleiki skiptir miklu máli fyrir reksturinn

Þegar stjórnendur eru spurðir að því hversu miklu máli stöðugleiki skiptir fyrir rekstur þeirra fyrirtækja svöruðu 94% þeirra að stöðugleikinn skipti miklu máli. 

Konnun-felagsmenn-7

Hér er hægt að nálgast greiningu SI með helstu niðurstöðum könnunarinnar.