CRR III hefur neikvæð áhrif á íbúðauppbyggingu
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Samtök iðnaðarins vari við því að innleiðing CRR III-reglugerðar Evrópusambandsins geti haft neikvæð áhrif á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hér á landi. Þar segir að samkvæmt samtökunum muni breytingarnar leiða til hærri vaxta á framkvæmdalánum og þar með aukins kostnaðar við byggingarframkvæmdir sem þegar séu orðnar dýrar. Í umsögn SI segi að þessi þróun komi á versta tíma, þar sem samdráttur í húsnæðisframkvæmdum sé þegar mikill og staðan á húsnæðismarkaði alvarleg og bent sé á að ríflega 40% verðbólgunnar megi rekja til húsnæðismarkaðarins. „Við teljum nauðsynlegt að vaxtakostnaður lækki, bæði á framboðs- og eftirspurnarhlið markaðarins,“ segir Ingólfur Bender aðalhagfræðingur SI, í fréttinni. Hann segir að lækkun stýrivaxta og rýmri lánþegaskilyrði frá Seðlabankanum séu lykilatriði í því að bæta stöðu neytenda. Þá kemur fram í fréttinni að þó að SI mótmæli ekki þeirri túlkun stjórnvalda að frumvarpið geti lækkað vaxtakostnað heimilanna, sérstaklega þeirra sem eiga mikið eigið fé, telji samtökin að það þurfi að horfa til þess að að vextir framkvæmdalána vegi mjög þungt og dragi úr uppbyggingu.
Í fréttinni er einnig greint frá svari við fyrirspurn Morgunblaðsins til fjármála- og efnahagsráðuneytisins þar sem kemur fram að ráðuneytið hafni því ekki að breytingarnar geti haft áhrif á framkvæmdalán en bendi á að heildaráhrif frumvarpsins séu líkleg til að lækka eiginfjárkröfur til banka og þar með skapa svigrúm til lægri vaxta.
Morgunblaðið, 7. nóvember 2025.


