Fréttasafn



12. nóv. 2021 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Danmörk og Ísland verði í fararbroddi grænna orkuskipta

Okkar sameiginlega sýn um sjálfbæra framtíð krefst þess að við sameinumst um leiðir fram á við. Þetta kallast vel á við áherslur ríkjanna tveggja, Danmerkur og Íslands, á að vera í fararbroddi grænna orkuskipta og umbreytinga þar sem nýsköpun og hugvit á þessu sviði getur – og mun varða leiðina að sjálfbærri framtíð. Þetta kemur fram í grein Kristen Geelan, sendiherra Danmerkur á Íslandi, Sigurðar Hannessonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, og Péturs Þ. Óskarssonar, framkvæmdastjóra Íslandsstofu, sem birt er í Morgunblaðinu undir yfirskriftinni Danmörk og Ísland í fararbroddi grænnar umbyltingar

Þau segja tímann vera lykilþátt ef við ætlum að láta gott af okkur leiða og tryggja núlifandi og komandi kynslóðum sjálfbært samfélag og umhverfi. Heimsókn dönsku sendinefndarinnar til Íslands í liðnum mánuði hafi mikilvægt fyrsta skref í samvinnu þessara þjóða á því sviði.Samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila er lykill að grænum umskiptum. Árangursríkt samstarf stjórnvalda sem fari með ákvörðunarvald annars vegar og iðnaðar hins vegar stuðli að lausnum á sviði loftslagsmála og sjáum við þess dæmi hjá bæði State of Green í Danmörku og Grænvangi á Íslandi. Slíkt samstarf sé nauðsynlegt til að takast á við sameiginleg viðfangsefni þessara aðila á vettvangi grænna orkuskipta þó að hlutverk aðila séu ólík. 

Íslandsheimsókn nýttist vel

Í greininni segir að ekkert ríki geti eitt og sér tekist á við þau grænu umskipti sem okkar bíði og því verðum við að vinna saman sem heild og læra hvert af öðru. Í þeim anda var Íslandsheimsókn hans konunglegu hátignar Friðriks, krónprins Danmerkur, sem kom í síðasta mánuði ásamt utanríkisráðherra Danmerkur og fulltrúum tíu fyrirtækja frá Danmörku og Grænlandi á sviði grænnar tækni og nýsköpunar. Þau segja að heimsóknin hafi nýst vel til að miðla danskri þekkingu og draga um leið lærdóm af reynslu íslenskra fyrirtækja sem hafa sérhæft sig í grænum lausnum. „Það er staðreynd að við verðum að draga úr losun. Ríki heims verða að sýna skýran vilja til að setja sér metnaðarfyllri markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ef okkur verður á í þeirri vegferð blasir við nýr veruleiki þar sem fást þarf við áskoranir vegna hækkandi hitastigs, hækkunar sjávarborðs, tíðari og alvarlegra þurrkatíða, með fleiri hitabylgjum og stormum á heimsvísu. Á norðurslóðum er bráðnun jökla hraðari en nokkru sinni fyrr og hér á Íslandi eru aurskriður að verða sífellt alvarlegri ógn.“

Dönsk og íslensk fyrirtæki gegna lykilhlutverki

Þá kemur fram í greininni að Danmörk hafi skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 70% fyrir árið 2030 og stefni Ísland að því að vera kolefnishlutlaust árið 2040. „Við teljum að þessi markmið séu ekki aðeins nauðsynleg, heldur einnig raunsæ. Dönsk og íslensk fyrirtæki munu gegna lykilhlutverki í vegferð ríkjanna til að ná þessum markmiðum. Atvinnulífið býr yfir reynslu og þekkingu til að umbreyta heiminum með nýsköpun á sviði í grænnar tækni. Dönsk og íslensk fyrirtæki hafa nú þegar upp á að bjóða framsæknar og háþróaðar orkulausnir, svo sem á sviði vinnslu og notkunar á jarðvarma-, sólar-, vind-, líf- og vatnsaflsorku og hitaveitna. Þessi þekking var ekki byggð upp af kvöð á atvinnulífið, heldur felast tækifæri í nýsköpun á sviði sjálfbærni og umhverfisvænnar tækni, sem helst í hendur við þörfina fyrir græn orkuskipti, bæði hjá ríkjunum tveimur sem og á heimsvísu.“

Samfellt og stöðugt samtal á vettvangi grænna lausna og orkuskipta

Í niðurlagi greinarinnar segir að í ljósi langrar sögu og arfleifðar þjóðanna beggja séu þau vongóð um að sjá þessi samskipti þróast yfir í samfellt og stöðugt samtal á vettvangi stjórnvalda sem og fyrirtækja og þannig stuðla að enn sterkari tengslum og samstarfi Íslands og Danmerkur á vettvangi grænna lausna og orkuskipta.

 

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 12. nóvember 2021.

Morgunbladid-12-11-2021