Fréttasafn7. maí 2021 Almennar fréttir Mannvirki Mannvirki – félag verktaka Starfsumhverfi

Dómstólar skeri úr um breytingar á byggingarvísitölu

Á rafrænum fundi Mannvirkis - félags verktaka og Samtaka iðnaðarins var fjallað um fyrirhugað dómsmáls vegna lækkunar á byggingavísitölunni sem kom til vegna hækkunar á endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% upp í 100% í átakinu Allir vinna svokallaða, en átakið er liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins.

Stjórn Mannvirkis og SI hafa frá því að vísitalan lækkaði vegna átaksins unnið að því að fá verkkaupa til að endurskoða þá samninga sem í gildi voru út frá ákvæðum í ÍST:30 en nú hefur verið ákveðið að vísa þeim ágreiningi til dómstóla. Á sama tíma hefur vinna átt sér stað við að gera breytingar á grunni byggingarvísitölunnar til framtíðar og mun sú breyting taka gildi um næstu áramót. Mikilvægt er að félagsmenn séu upplýstir um bæði dómsmálið og þær breytingar sem eru í vændum.

Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, fór yfir feril málsins og lögfræðileg álitaefni sem nú eru uppi. Fór hún m.a. yfir samskipti SI og Mannvirkis við opinbera aðila og þá vinnu sem hefur átt sér stað til að greina stöðuna. Samtökin óskuðu formlega eftir endurskoðun á byggingarvísitölu til lækkunar en niðurstaða verkkaupa og stjórnvalda var á þá leið að mál þetta þyrfti að leiða til lykta fyrir dómstólum.

Hér er hægt að nálgast glærur sem Björg Ásta var með á fundinum.

Hjördís Halldórsdóttir, hrl. hjá Logos lögmannsstofu, tók til máls en hún mun fara með málið áfram fyrir hönd verktaka. Málið snýst um ágreining á túlkun á gr. 5.1.13 í ÍST 30:2012 og hvort verktaki geti óskað eftir breytingu á samningsfjárhæð á grundvelli hennar. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að verktakar hugi að því að halda sínum réttindum til haga og ættu að áskilja sér rétt fyrir uppgjör lokagreiðslna og huga að þessum kröfum.

Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá SI, fór yfir fyrirhugaðar breytingar á byggingarvísitölunni til framtíðar og gildistöku nýrra laga sem nú eru til meðferðar á Alþingi. Samtökin sendu erindi á forsætisráðuneytið og óskuðu eftir endurskoðun á lögum um byggingarvísitöluna. Það var tekið vel í þessa beiðni og í september sl. var starfshópur skipaður og er frumvarpið nú komið inn á Alþingi og lög um byggingarvísitölu byggingarkostnaðar nr. 42/1987 munu falla úr gildi. Ný byggingarvísitala verður innleidd um næstu áramót ef af lögunum verður. 

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Björg Ásta Þórðardóttir, yfirlögfræðingur SI, Hjördís Halldórsdóttir, hrl. hjá Logos lögmannsstofu, og Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI.