Fréttasafn11. nóv. 2020 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Draumur í dós að fá fleiri hendur og hausa í fyrirtækið

„Það eru allir að spyrja sig, hvernig komumst við út úr kófinu? Það á bara að setja í fjármálaáætlun að öll nýsköpunarverkefni með A í einkunn og þar af leiðandi styrktarhæf, fái úthlutað fjármagni. Svo finnst mér blasa við að Vinnumálastofnun fari í samstarf með okkur í nýsköpun. Það eru sögulega margir vel menntaðir einstaklingar sem eru að horfa fram á langtímaatvinnuleysi. Við getum rannsakað og þróað endalaust, en ég hef því miður ekki efni á að ráða til mín allt þetta fólk,” segir Fida Abu Libdeh, stofnandi nýsköpunarfyrirtækisins GeoSilica sem er meðal aðildarfyrirtækja SI, í viðtali á vefsíðunni Höldum áfram. Fida vill stórefla nýsköpun og efla Tækniþróunarsjóð enn meira og sjá sjóðinn gefa meira til fyrirtækja sem eru þegar starfandi, en ekki eingöngu til sprotafyrirtækja sem eru nýjar hugmyndir. 

Fida segir í viðtalinu að allir í nýsköpun viti að verðmætin séu fólgin í fólkinu sem vinnur þar. „Að fá fleiri hendur og hausa inn í GeoSilica væri draumur í dós. Ég er sérfræðingur í jarðvarmaorku, ég væri til í að fá sérfræðing úr fjármálageiranum, markaðssmanneskju, PR-manneskju, úr lyfjageiranum og svo mætti áfram telja. Þverfaglegt samstarf við fólk sem kann annað en ég. Það var svipað verkefni sett af stað í kreppunni 2008 og nú vona ég bara að forsætisráðherra og forstjóri Vinnumálastofnunar lesi þetta. Það er fullt af hæfu, atvinnulausu fólki þarna úti sem eru að leita að vinnu hjá fyrirtæki eins og okkar. Það þarf bara að koma okkur saman.”

Ekki bara flugfélög og hótel sem lentu í heimsfaraldrinum

Í viðtalinu kemur fram að Fida hafi þurft að bregðast við minnkandi tekjum með því að segja upp fólki, tveimur af fimm starfsmönnum fyrirtækisins. „Við þurftum því miður að segja upp góðu fólki því það varð minna að gera. Maður veit ekkert hvað er framundan. Við ætlum bara að lifa þennan faraldur af, halda kostnaði í lágmarki og vona það besta.” Í viðtalinu kemur einnig fram að þegar Fida sá fram á í vor að áætlanir stæðust ekki, hafi starfsfólkið farið að einblína frekar á rannsóknir og þróun og minna á markaðsstarfið, dreifingu og sölu. „Ég hugsaði bara, ókei – heimurinn er lokaður. Við getum ekki fengið nýja sölusamninga, en við getum þróað vöruna okkar og hugverkið áfram. En ég þarf fjármagn til að lifa það af. Ég hefði viljað sjá stjórnvöld ráðast í almennari aðgerðir. GeoSilica sótti til dæmis um lán en fékk það svar að málið yrði skoðað en slíkt væri aðallega hugsað fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Það voru ekki bara flugfélög og hótel sem lentu í heimsfaraldrinum.”

Hér er hægt að lesa viðtalið við Fidu í heild sinni.

Myndir: Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Fida_1604927738567Fida Abu Libdeh, stofnandi GeoSilica.