Fréttasafn



16. apr. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Draumur um nám í jarðvinnu verður að veruleika

„Það hefur verið draumur minn og margra annarra að geta ráðið til sín starfsmenn sem hlotið hafa kennslu í undirstöðuatriðum greinarinnar og fá þá starfsmenn sem eru greinilega að leggja þetta fag fyrir sig sem framtíðarvinnu,“ segir Vilhjálmur Þór Matthíasson hjá Fagverk og stjórnarmaður Félags vinnuvélaeigenda sem er aðili að SI í Fréttablaðinu í dag en Félag vinnuvélaeigenda er að vinna að því að  koma jarðvinnu inn í skólakerfið með það að markmiði að nemendur útskrifist með svipaða gráðu og iðnaðarmaður gerir í dag. Þá kemur fram að Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hafi tryggt verkefninu gott upphaf með því að veita fimm milljóna króna styrk og næstu skref felist í að ráða verkefnastjóra sem mun halda utan um verkefnið, til dæmis myndun námskrár, þróun raunfærnimats o.fl. í samráði við félagið.

Í viðtalinu segir Vilhjálmur Þór að meðalaldur í greininni hafi farið hratt vaxandi og komi þar meðal annars við sögu sú mikla pressa sem sett er á ungt fólk að það verði að læra eitthvað eftir grunnskóla og þar af leiðandi hefur nýliðun í greininni verið æ minni með hverju árinu þrátt fyrir gott vinnuumhverfi og vel borguð störf. „Þegar unnið er við okkar fag er engan skóla að leita í og fæstir vita hvað í vinnunni felst og hvers er ætlast til. Þá hefur starfið ekkert nafn en menn segja: Ég vinn á gröfu, eða ég keyri vörubíl, þó að það sé jafnvel lítill hluti af starfinu. Það má kannski líkja því við að ef smiður mundi segja: Ég negli nagla, í staðinn fyrir að segja: Ég er smiður. Flestir vita að starf smiðsins er mikið og fjölbreytt rétt eins og jarðvinnan. Verktakar hafa hingað til þurft að kenna og ala upp unga starfsmenn en sú þjálfun tekur mörg ár og virkar ekki vel því flestir hafa nóg með að halda tannhjólunum gangandi.“ 

Fréttablaðið, 16. apríl 2019.

Frettabladid-16-04-2019