Fréttasafn9. jún. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Innviðir Mannvirki Orka og umhverfi

Dregið verður úr árlegri kolefnislosun bygginga á Íslandi

Byggingariðnaðurinn, í samvinnu við stjórnvöld, hefur sett sér þau markmið að dregið verði úr árlegri kolefnislosun bygginga á Íslandi um 43% fyrir árið 2030, miðað við núverandi losun. Markmiðin eru sett fram í nýjum vegvísi um vistvæna mannvirkjagerð sem gefinn var út í dag á vegum samstarfsvettvangs stjórnvalda og atvinnulífs, Byggjum grænni framtíð. Í vegvísinum er losun íslenskra bygginga metin, markmið sett um að draga úr losun fyrir 2030 og aðgerðir skilgreindar til að ná þeim markmiðum. Í fréttatilkynningu kemur fram að þetta sé í fyrsta sinn sem losun, markmið og aðgerðir fyrir vistvæna mannvirkjagerð á Íslandi séu skilgreind með þessum hætti. Hátt í 200 einstaklingar innan allrar virðiskeðju mannvirkjageirans tóku þátt í gerð vegvísisins. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun heldur utan um samstarfsvettvanginn Byggjum grænni framtíð.

Stefnt er að því að losun mannvirkjageirans verði metin á ný fyrir lok ársins 2024, og að markmið og aðgerðaáætlunin verði í framhaldinu endurskoðuð í samræmi við reynslu og nýjar upplýsingar varðandi vistvæna mannvirkjagerð. 

Stórt skref í átt að vistvænni uppbyggingu segir framkvæmdastjóri SI

Í vegvísinum eru kynntar 74 aðgerðir, þar af eru 23 aðgerðir ýmist komnar á undirbúnings-/framkvæmdastig eða þeim lokið. Um 50 aðilar úr ýmsum áttum eiga aðild að því að koma aðgerðunum í framkvæmd með einum eða öðrum hætti.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins: „Byggingariðnaðurinn mun með þessum áfanga stíga stórt skref í átt að vistvænni uppbyggingu. Náið samstarf atvinnulífs og stjórnvalda um eftirfylgni aðgerðanna verður þó áfram lykillinn að árangri þar sem stjórnvöld móta umgjörðina og atvinnulífið innleiðir nýja hugsun, nýsköpun og aðferðafræði.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra: „Eitt mikilvægasta verkefni okkar um þessar mundir er baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum. Það er mikið fagnaðarefni að heil atvinnugrein hafi í samvinnu við stjórnvöld sett sér skýr og háleit markmið um að draga úr kolefnislosun. Það er í senn tímabært og nauðsynlegt.“ 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og nú er komið að þeim áfanga í vegferðinni að íslenskt atvinnulíf þarf að stíga inn í aðgerðaáætlunina af fullum þunga. Það liggja mikil tækifæri í eflingu hringrásarhagkerfisins og byggingariðnaðurinn hefur í þessum vegvísi komið með nýstárlegar lausnir.“ 

Hermann Jónasson, forstjóri HMS: „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með þessu öfluga samstarfi um vistvæna mannvirkjagerð, þar sem stjórnvöld og byggingargeirinn hafa unnið saman að því að búa til markvisst og mjög metnaðarfullt aðgerðaplan. Ég hef mikla trú á að þessum markmiðum verði náð.“ 

Samstarfsvettvangurinn stjórnvalda og atvinnulífs

Byggjum grænni framtíð er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um vistvæna mannvirkjagerð. Hann á rót sína að rekja til aðgerðar C.3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og er mikilvægur í ljósi þess að mannvirkjageirinn ber ábyrgð á 30-40% af losun á heimsvísu. Hlutfallsleg auðlindanotkun og orkunýting hans er á svipuðum skala.

Í verkefnastjórn Byggjum grænni framtíð sitja:

 • Jóhanna Klara Stefánsdóttir, Samtök iðnaðarins
 • Lárus M. K. Ólafsson, Samtök iðnaðarins
 • Áróra Árnadóttir, Grænni byggð
 • Ragnar Ómarsson, Grænni byggð
 • Eygerður Margrétardóttir, Samband íslenskra sveitarfélaga
 • Páll Valdimar Kolka, Vegagerðin
 • Erna Bára Hreinsdóttir, Vegagerðin
 • Sigrún Dögg Kvaran, innviðaráðuneytið
 • Olga Árnadóttir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun
 • Birgitta Stefánsdóttir, Umhverfisstofnun
 • Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (verkefnastjóri)