Fréttasafn10. okt. 2018 Almennar fréttir

Dregur nokkuð hratt úr hagvexti

Morgunblaðið segir frá því í dag að erlendir starfsmenn á vinnumarkaði séu 30% færri nú en á síðasta ári. Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing Samtaka iðnaðarins, sem segir tölur Hagstofunnar fyrir fyrri hluta ársins benda til að starfandi fólki sé enn að fjölga en þó hafi dregið úr vextinum. Innflytjendum með lögheimili erlendis hafi fækkað á vinnumarkaði síðan í mars, þá m.a. í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Fram undan sé meira jafnvægi í framboði og eftirspurn á vinnumarkaði. „Ég held að atvinnuleysi muni aukast. Dregið hefur úr hagvexti og slaknað á þeirri spennu sem hefur verið á vinnumarkaði.“ Ingólfur telur að þó að hagvöxtur hafi mælst talsverður á fyrri hluta árs muni nokkuð hratt draga úr honum á seinni hluta ársins og þegar kemur fram á næsta ár.

Morgunblaðið / mbl.is, 10. október 2018.