Fréttasafn20. júl. 2018 Almennar fréttir

Dregur úr fjölgun íbúa

Íbúum á landinu fjölgaði um 2.360 á öðrum fjórðungi þessa ár og hefur íbúum þá fjölgað um 4.490 á árinu. Þetta kemur fram í nýjum tölum um fólksfjölda sem Hagstofan birtir á vef sínum. Mannfjöldi í lok ársfjórðungsins er því 353.070, 51% karlar og 49% konur. 

Það er að draga úr fjölgun íbúa frá síðastliðnu ári en það ár var met í íbúafjölgun hér á landi. Fjölgaði íbúum þá um 5.510 á fyrri árshelmingi. Tölurnar undirstrika að það er að draga úr hagvextinum og spurn fyrirtækja eftir auknu vinnuafli.

Þrátt fyrir hægari fólksfjölgun en í fyrra er fólksfjölgunin búin að vera mjög mikil í ár í sögulegu ljósi og meiri á fyrri hluta þessa árs en á nokkru öðru ári í þessari efnahagsuppsveiflu, að síðasta ári frátöldu.

Mikill vöxtur í fólksfjölda kallar á aukinn fjölda íbúða um þessar mundir. Hægari vöxtur fólksfjölda ásamt auknu framboði nýrra íbúða er hins vegar að skapa betra jafnvægi á íbúðamarkaði um þessar mundir. Miðað við mikla íbúafjölgun er framboðið hins vegar ekki að ná að vinda ofan af mikilli uppsafnaðri íbúðaþörf sem myndast hefur á síðustu árum samhliða litlu framboði lóða, sérstaklega á höfuðborgarvæðinu.    

Mynd-ingolfur