Fréttasafn29. nóv. 2018 Almennar fréttir Nýsköpun

Dreifa kostnaði af einkaleyfismálum á fleiri herðar

Stjórnvöld eru um þessar mundir að vinna að því að móta stefnu varðandi nýsköpun á Íslandi og sú hugmynd að dreifa kostnaðinum af einkaleyfismálum á fleiri herðar gæti verið hluti af þeirri vinnu, og þá í þeim tilgangi að efla hið hugvitsdrifna hagkerfi. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI í viðtali við Ásgeir Ingvarsson, blaðamann, í ViðskiptaMogganum í dag. Í grein Ásgeirs segir meðal annars að íslenska tæknifyrirtækið Nox Medical hafi unnið einkaleyfismál gegn bandaríska risafyrirtækinu Natus og að kostnaður Nox Medical vegna málsins nemi nokkrum milljónum dollara. Þá segir að erfitt sé að finna það íslenska fyrirtæki sem færi létt með að standa undir stríðskostnaði upp á fleiri hundruð milljónir króna og að málið hafi vakið marga til umhugsunar, því eins mikilvægt og það er að fá einkaleyfisskráningu til að verja verðmæt hugverk þá getur það verið stærri biti en mörg íslensk fyrirtæki ráði við að ætla að bera hönd fyrir höfuð sér ef einkaleyfi þeirra er ekki virt.

Fá hugverkaréttindi skráð af íslenskum lögaðilum

Sigurður nefnir jafnframt að þetta varði samkeppnishæfni Íslands. „Hjá Samtökum iðnaðarins höfum við verið að velta þessum málaflokki fyrir okkur og gáfum fyrr á árinu út skýrslu um samkeppnishæfni þar sem kom m.a. fram að hugverkaréttindi skráð af íslenskum lögaðilum eru tiltölulega fá. Heilt á litið virðast einkaleyfatölurnar á Íslandi áþekkar því sem gengur og gerist annars staðar en ef við drögum erlendu lögaðilana frá kemur annað í ljós.“

Sigurður segir að það væri vel þess virði að skoða hvort einhvers konar stuðningur í einkaleyfamálum myndi breyta þessu og bendir á að ef fjárhagslegur stuðningur sé í boði geti það haft verulegan fælingarmátt. „Ef erlendir keppinautar átta sig á að íslensk fyrirtæki hefðu, þrátt fyrir smæðina, einhvers konar bakhjarl að leita til, þá gæti það latt þá til að stela einkaleyfum eða gert þá viljugri til að setjast að samningaborðinu áður en mál færu alla leið fyrir dómstóla. Gætu áhrifin verið svipuð og límmiði í glugga sem varar skúrka við að húsið sé vaktað.“ 

Hvetja íslenskt fyrirtæki til að fá einkaleyfi fyrir hugverkum

Í greininni kemur fram að mat Sigurðar sé að gera eigi allt sem hægt er til að hvetja íslensk fyrirtæki til að fá einkaleyfi fyrir þeim hugverkum sem þau skapa, og þar geti einhvers konar sameiginlegur sjóður vegna dómsmála leikið hlutverk. „Drifkraftur hagvaxtar á 20. öldinni var hagkvæm nýting náttúruauðlinda, en von um að forsenda hagvaxtar 21. öldinni verði hugvitið og nýting þess. Má fullyrða að hugverkaréttindi verði lykillinn í því að efla samkeppnishæfni Íslands og bæta lífskjör.“

ViðskiptaMogginn, 29. nóvember 2018.