Fréttasafn



14. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

DTE í aðalhlutverki í nýrri heimildarmynd CBS

Íslenska nýsköpunarfyrirtækið DTE sem er aðildarfyrirtæki SI er í aðalhlutverki í einni af nýrri röð heimildarmynda sem sýndar eru á bandarísku sjónvarpsstöðinni CBS. Í þáttaröðinni, sem ber heitið „Innovation and Disruption Leaders“ er fjallað um einstaklinga og fyrirtæki sem eru að endurmóta heilu atvinnugreinarnar og þrýsta á mörk þess sem mögulegt er. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að val á DTE til þátttöku í þáttaröðinni undirstriki tímamótaframlag fyrirtækisins til áliðnaðarins og möguleika þess til að umbreyta málmiðnaði á heimsvísu.

Þátturinn sem fjallar um DTE var sýndur á CBS í gær. Myndin gefur áhorfendum einstakt tækifæri til að skyggnast bak við tjöldin hjá íslensku hátæknifyrirtæki sem hefur áhrif á heiminn allan. Það sem gerir DTE einstakt og tæknilausnir þess svo áhrifamiklar sem raun ber vitni er að aldrei áður hefur verið hægt að efnagreina samsetningu fljótandi málma með sömu nákvæmni og tæki sem efnagreina steypt sýni.

Í tilkynningunni segir að tæknilausnir DTE skili niðurstöðum sínum í rauntíma, en bíða þarf í allt að 48 klst. eftir niðurstöðum þegar eldri aðferðir eru notaðar. Þetta þýði að hægt sé að taka ákvarðanir hraðar og með skilvirkari hætti, fá betri yfirsýn yfir vörugæði, greina frávik samstundis, hámarka afköst og bæta öryggi starfsfólks. Betri framleiðslustýring muni svo skila sér í minni umhverfisáhrifum á flestum stigum framleiðslu, ekki síst vegna þess að nákvæmar upplýsingar um efnainnihald munu gera framleiðendum kleift að auka hlutfall endurunnins áls í málmblöndum. Kolefnisspor endurunnins áls sé aðeins lítið brot af kolefnisspori frumvinnslunnar og skiptir því sköpum að geta hækkað þetta hlutfall.

Í heimildarmyndinni er rætt við Derek Prichett, yfirforstjóra fyrirtækjaþróunar hjá Novelis, stærsta endurvinnsluaðila áls í heiminum og einum af fjárfestum DTE, um möguleika DTE til að umbreyta málmvinnslu og aðstoða málmframleiðendur við að minnka kolefnisfótspor þeirra.

2T8A0929-EditKarl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE: „Það er ótrúlegur heiður að vera hluti af þessari heimildarmyndaröð og þetta er mikil viðurkenning á því að við erum á réttri leið í okkar vinnu. En það er líka ánægjulegt að vita til þess að heimildarmyndin mun vekja meiri athygli á okkar góða fólki, hæfileikum þess og ástríðu fyrir því að bæta heiminn.“