Fréttasafn



15. des. 2025 Almennar fréttir

EES-samningurinn ein aðalundirstaða lífskjara

Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins og yfirlögfræðingur Marels, ræðir við Kristján Kristjánsson í Sprengisandi um EES-samninginn og mikilvægi hans fyrir Ísland. Kristján spyr Árna meðal annars hvort hægt væri að skipta honum út og hvort annars konar fríverslunarsamningar gætu dugað íslenskum útflutningi. Árni segir að þetta sé áhugaverð umræða og það sé jákvæð þróun að umræða um lykilhagsmuni Íslands sé að aukast að nýju. „Að mínu mati þá mundi ég segja nei, við erum á mikið betri stað innan EES-samningsins en utan hans. Það var haldið upp á 30 ára afmæli samningsins í fyrra og á svoleiðis tímamótum fara menn að gera hlutina upp. Ég hygg að atvinnulífið allt sé á þeirri skoðun að þetta sé algjör lykilsamningur og okkar helsti samningur sem tryggir góð lífskjör og opnar aðgengi að okkar stærsta markaði.“ Árni segir að Ísland sé auðvitað útflutningsdrifið hagkerfi og einn af okkar lykilhagsmunum sé að útflutningur sé öflugur og óhindraður.

Hér er hægt að hlusta á viðtalið við Árna í heild sinni. 

Bylgjan, 14. desember 2025.