Fréttasafn



9. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Orka og umhverfi Starfsumhverfi

EES samningurinn í forgrunni í íslensku atvinnulífi

EES-samningurinn hefur skilað ótvíræðum árangri fyrir íslenskt samfélag og hann á því að vera í forgrunni allrar ákvarðanatöku í íslensku atvinnulífi. Þetta kemur fram í viðtali Markaðarins við þá Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra SA, og Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, þegar talið berst að EES-samningnum sem dregist hefur inn í umræðuna um þriðja orkupakkann. „EES-samningurinn og markaðsaðgangurinn sem hann veitir íslenskum fyrirtækjum skilar margþættum árangri á hverju einasta ári, í hverri einustu viku og hvern einasta dag. Hann er forsenda útflutningsviðskipta þjóðarinnar í stóra samhenginu. Ég vil ganga svo langt að segja að útflutningshagsmunir, sama hvort það er í sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu eða öðrum nýsköpunargreinum, séu grundvallaðir á EES-samningnum og hann verður að vera í forgrunni allrar ákvörðunartöku íslensks atvinnulífs,“ segir Halldór.

Langmikilvægasti markaðurinn

Í viðtalinu kemur Sigurður inn á að frá innleiðingu EES-samningsins árið 1994, eða fyrir um 25 árum, hafi útflutningur Íslands vaxið um 270 prósent. Hann segir að vöxturinn hafi hins vegar numið 131 prósenti aldarfjórðunginn fram að 1994. Þá bendir hann á að til þess eins að standa undir óskuldsettum og ásættanlegum hagvexti, 4 prósentum til langs tíma, þurfi að auka útflutningsverðmæti þjóðarinnar um 1.000 milljarða á næstu 20 árum og að það samsvari 50 milljörðum á ári í 20 ár.

Þá kemur fram að um 65 prósent af öllum utanríkisviðskiptum okkar séu inn á EES- og EFTA-svæðið. Halldór segir að þetta sé ekki bara mikilvægur markaður. „Þetta er langmikilvægasti markaðurinn og þannig að það komi skýrt og skorinort fram: íslenskt atvinnulíf tekur skýra afstöðu með frjálsum viðskiptum í opnu hagkerfi.“