EES-samningurinn mikilvægasti viðskiptasamningur Íslands
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI, tók þátt í málþingi sem haldið var í tilefni 30 ára afmælis EES-samningsins í Háteig á Grand Hótel Reykjavík 8. maí af utanríkisráðuneytinu, Rannís, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðuneytinu ásamt Sendinefnd ESB á Íslandi. Sigríður tók þátt í umræðum um innri markaðinn, atvinnulíf og nýsköpun ásamt Guðmundi Fertram, forstjóra Kerecis, og Kára Helgasyni, forstöðumanni rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix, en umræðum var stýrt af Birni Malmquist, fréttaritara RÚV í Brussel.
Í máli Sigríðar kom meðal annars fram að EES-samningurinn væri mikilvægasti viðskiptasamningur sem Ísland væri aðili að en það skipti miklu máli að sýna aðhald gagnvart samningnum og sinna hagsmunagæslu á vettvangi Evrópusambandsins varðandi regluverk sem er innleitt í EES-samninginn. Hún sagði að þar þyrftu atvinnulífið og stjórnvöld að snúa bökum saman. Jafnframt kom fram í máli Sigríðar að talsverðar áskoranir væru nú um stundir í tengslum við innleiðingu á ESB gerðum í EES-samninginn vegna regluverks ESB í stórum málaflokkum, s.s. hvað varðar loftslags- og orkumál. Hún fjallaði einnig sérstaklega um það vandamál sem gullhúðun EES-reglna væri á Íslandi og sagði að vinda þyrfti ofan af þeirri stöðu. Eftir sem áður væri þátttaka Íslands á innri markaðnum stórt hagsmunamál, ekki síst með tilliti til útflutningshagsmuna og nýsköpunar.
Hér er hægt að nálgast upptöku af málþinginu:
https://www.youtube.com/live/wuhj_0MJaPc
Björn Malmquist, fréttaritari RÚV í Brussel, Kári Helgason, forstöðumaður rannsókna og nýsköpunar hjá Carbfix, Guðmundur Fertram, forstjóri Kerecis, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.
Guðmundur Fertram, forstjóri Kerecis, og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ávarpaði málþingi.