Fréttasafn



18. mar. 2022 Almennar fréttir Ár grænnar iðnbyltingar Orka og umhverfi

Ef það næst nógu mikil sátt erum við fljót að framkvæma

Árni Sigurjónsson, formaður SI og yfirlögfræðingur hjá Marel, er í samtali við Sigmund Erni Rúnarssonar í þættinum Mannamál á Hringbraut. Þar ræða þeir meðal annars um umræðuna sem var á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins sem bar yfirskriftina Græn iðnbylting á Íslandi. „Við getum ekki setið hjá í því sem er að gerast í heiminum almennt. Okkur fannst mikilvægt að taka upp þetta málefni af því breytingarnar eru að eiga sér stað í þessum græna geira. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér mjög metnaðarfull markmið varðandi kolefnishlutleysi og vera óháð innfluttri orku, olíu og slíku, fyrir 2040.“

Árni segir að við höfum mikið forskot. „Við erum búin að ganga í gegnum allavega tvenn orkuskipti sjálf. Við höfum forskot á aðrar þjóðir hvað það varðar. En því miður sjáum við það núna að það er bæði orkuskortur og það er þessi öfugu orkuskipti í ákveðnum geirum þar sem menn eru að fara að tengja olíuna aftur í staðinn fyrir rafmagnið. Það helgast fyrst og fremst af skorti á raforku og raforkugjöfum og flutningskerfið hefur drabbast niður. Við höfum tekið virkan þátt í umræðunni um innviði og komist að því að flutningskerfi raforku er að hluta til orðið gamalt og það verður sóun í kerfinu. Við erum að sóa kannski 10% af þeirri raforku sem að framleiða og keyra í gegnum kerfið af því það er orðið úr sér gengið. Þannig að allt þetta spilar saman og þess vegna vildum við setja þetta mál fram líka, ekki bara til að tala um vandamálin, auðvitað hvar við stöndum og taka skarpa og góða mynd af því. Hvar nákvæmlega Ísland stendur í þessum efnum, í miðri öldu breytinga, heldur líka tækifærin. Hvað þetta hefur að segja fyrir íslenskan iðnað, íslenskt atvinnulíf og íslenskt efnahagslíf.“

Þá segir Árni að við séum stundum fljót að fara ofan í skotgrafir og tala um vandamál. „Við þekkjum þessa umræðu sem hefur verið á Íslandi síðustu ár og áratugi varðandi orkuöflunarmál og virkjanamál. Við þurfum aðeins að draga inn andann núna og segja ok hvað ætlum við að gera. Ætlum við að ná þessum markmiðum sem eru góð, þau eru metnaðarfull en hvernig ætlum við að komast þangað.“

Þegar Sigmundur Ernir spyr Árna hvort hann sé bjartsýnn að markmiðin náist segist hann vera bjartsýnn. „Ég held reyndar að við getum ekki gert neitt annað. Það er ekkert annað í boði. Án þess að ætla að kæfa niður einhverja umræðu sem er gríðarlega mikilvæg því við þurfum að ná sátt um þessi mál þá er ég mjög bjartsýnn á það. Við Íslendingar höfum sýnt það ef við einsetum okkur eitthvað og það næst nógu mikil sátt þá erum við fljót að framkvæma. Við eigum frábært hugvitsfólk, frábæra frumkvöðla. Stjórnvöld hafa sýnt okkur það með orkustefnu, t.d. í núverandi stjórnarsáttmála sem eru mjög metnaðarfull líka. Atvinnulífið er tilbúið. Á sumum sviðum er það komið af stað, aðrir bíða í startholunum og geta varla beðið eftir að taka þátt í þessu.“

En heldurðu að pólitíkin sé tilbúin? „Það er góð spurning. Ég skynja það að hún sé tilbúin, ég held að það sé grynnra á einhverjum atriðum sem taka kannski meira pláss í umræðunni ætti að gera. En ég skynja almenna breiða samstöðu og þess vegna er ég líka bjartsýnn.“

Í samtalinu víkur Árni að því sem hann sagði í ræðu sinni á Iðnþingi. „Við höfum val um ákveðnar breytingar og breytingar eru að eiga sér stað alltaf hraðar og hraðar, við finnum þetta bara sjálf. Sumar breytingar höfum við ekkert val um og stöðnun er ekki valkostur. Þetta er einn af þeim hlutum sem við fáum ekki breytt. Þetta er bara það sem er að gerast á heimsvísu.“

Á vef Hringbrautar er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Hringbraut, 17. mars 2022.