Fréttasafn



5. mar. 2021 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Efnahagsleg markmið komandi kjörtímabils að mati SI

Í nýrri greiningu SI eru sett fram efnahagsleg markmið sem Samtök iðnaðarins telja að ættu að vera á komandi kjörtímabili. Þar kemur fram að samdrátturinn í efnahagslífi landsmanna hafi verið verulegur á síðastliðnu ári en landsframleiðslan dróst saman um 6,6% á árinu. Efnahagsleg lífsgæði landsmanna versnuðu verulega en landsframleiðsla á mann lækkaði um 8,2% á árinu sem er mesti samdráttur í landsframleiðslu á mann sem mælst hefur hér á landi frá upphafi mælinga, þ.e. frá árinu 1946. Heimsfaraldur kórónuveiru olli umtalsverðum samdrætti í gjaldeyristekjum eða ríflega 30% á síðasta ári, aðallega vegna verulegs samdráttar í gjaldeyristekjum af erlendum ferðamönnum. Atvinnuleysi jókst hratt og fór upp í hæðir sem Íslendingar eru ekki vanir að sjá. Mældist atvinnuleysið tæplega 12% í janúar á þessu ári en þá voru um 22 þúsund atvinnulausir.

Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess að treysta megi velsæld og lífsgæði til framtíðar. Efnahagsleg markmið næsta kjörtímabils, fyrir árin 2021-2025, er að skapa með sjálfbærum hætti nægan hagvöxt til að vinna bug á atvinnuleysi og auka efnahagsleg lífsgæði þjóðarinnar. Auka þarf landsframleiðslu á mann þannig að hún verði meiri en hún var fyrir núverandi niðursveiflu. Skapa þarf efnahagsleg lífsskilyrði sem laðar fólk og fyrirtæki til landsins. Auka þarf gjaldeyristekjur, verðmætasköpun og fjölga störfum í einkageiranum. Standa þarf vörð um stöðugleikann. Efla verður samkeppnishæfni með áherslu á þá þætti sem helst eru til þess fallnir að auka umsvif fyrirtækja í landinu og fjölga störfum. 

Í greiningunni kemur einnig fram að þetta sé vel mögulegt því við höfum gert þetta áður. Ekki þarf að fara langt aftur til að finna dæmi um það og jafnvel meiri vöxt. Yfir tímabilið 2015-2018 var hagvöxtur að meðaltali 4,9% árlega, sem sagt nokkru meiri en ofangreint markmið er um á næsta kjörtímabili. Útflutningur óx að meðaltali um 6,6% árlega eða nokkru meira en gert er ráð fyrir í ofangreindu markmiði fyrir næsta kjörtímabil. Starfandi fjölgaði um 3,9% árlega og um samanlagt 28 þúsund. Munurinn á þessu tímabili og næsta kjörtímabili er að á tímabilinu 2015-2018 var mikið flutt inn af vinnuafli en nú ætlum við að nýta að mestu vinnuafl sem fyrir er í landinu og ná þannig atvinnuleysinu niður og auka atvinnuþátttöku. Markmiðið er þó einnig að skapa lífskilyrði sem kallar á fólksfjölgun þó að hún verði ekki í sama mæli og á tímabilinu frá 2015-2018.

Hér er hægt að nálgast greininguna í heild sinni. 

Mynd-af-Islandi

 

Mynd-efnahagsleg-markmid-002-