Fréttasafn



10. jan. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Eftirlitsstofnanir miðli upplýsingum sín á milli

Það er ótrúlegt að stjórnvöld skuli ekki, þegar öll tækni, tól og aðferðir eru til staðar, geta miðlað upplýsingum á milli eftirlitsstofnana þannig að einungis eitt starfsleyfi verði gefið út fyrir hvert fyrirtæki heldur þurfi að margsenda umsóknir og tilkynningar til stjórnvalda. Þetta er í andstöðu við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um einföldun regluverks og reyndar nokkurra þeirra sem á undan komu. Þetta kemur fram í sameiginlegri umsögn Samtaka atvinnulífsins, Samtaka iðnaðarins, Samtaka ferðaþjónustunnar og Samtaka verslunar og þjónustu um frumvarp um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

Íþyngjandi að ríkisvaldið krefjist starfsleyfa á mörgum stöðum

Í umsögninni kemur fram að samtökin telji afar mikilvægt að dregið verði úr skyldu fyrirtækja til að afla leyfis samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir eins og kostur er, sérstaklega þar sem almennt er um að ræða starfsemi sem lítil áhætta fylgir. Þá er nefnt í umsögninni að þessi starfsemi sé í mörgum tilvikum þegar bundin starfsleyfi samkvæmt öðrum lögum og það sé því íþyngjandi að ríkisvaldið krefjist þess að aflað sé starfsleyfa hjá mörgum stjórnvöldum. Í þeim tilvikum þegar útgefið starfsleyfi sé nauðsynlegt skilyrði starfsemi ætti frekar að fækka leyfum en efla á móti möguleika stjórnvalda til að miðla upplýsingum sín á milli um viðkomandi starfsemi. Ávinningurinn sé augljós. 

Ellefu sjálfstæð eftirlitsstjórnvöld

Jafnframt kemur fram í umsögninni að ekki bæti úr að eftirlitsaðilar séu mjög margir og samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir séu það ellefu sjálfstæð eftirlitsstjórnvöld sem eigi að fylgja þeim eftir. Það blasi við að eftirlitinu sé misjafnlega fylgt eftir, kröfur geti verið misjafnar og það sem leyfist á einum stað kunni að vera bannað annars staðar. Að auki hafi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eftirlit með umfangsmikilli starfsemi sveitarfélaganna sjálfra sem sé óeðlilegt og bjóði upp á mismunun. 

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.