Fréttasafn



30. sep. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Eina lausnin á vandanum er að auka framboð á lóðum

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Morgunblaðsins að Seðlabankinn sé að tala á sömu nótum og samtökin hafi verið að gera síðustu misseri. Í fréttinni kemur fram að framboð íbúðarhúsnæðis sé vandamál og að áframhaldandi ójafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á húsnæði þrýsti verði upp og að það geti skapað áhættu á markaðnum. 

Ingólfur segir að ráðstöfun Seðlabankans að setja reglur um hámark greiðslubyrðar um fasteignalán í hlutfalli við tekjur neytenda sé í sjálfu sér fín, bankinn sé að leitast við að tryggja fjármálastöðugleika og í leiðinni stöðugleika á íbúðamarkaði, líkt og SI hafi lengi talað fyrir. Hann segir að eina lausnin á vandanum sé að auka framboð á lóðum. „Þar er flöskuhálsinn, eins og við höfum lengi bent á. Sveitarfélögin hafa haldið að sér höndum í þessum efnum. Það sem Seðlabankinn er að gera núna hefur áhrif á eftirspurnina en framboðshliðin er rót vandans.“

Ítrekuð varnaðarorð SI sem vilja stöðugleika á markaðinn

Þá segir Ingólfur í Morgunblaðinu að um fyrirbyggjandi aðgerðir sé að ræða af hálfu bankans sem hafi ekki áhrif til skamms tíma. „Þarna er verið að setja upp ákveðnar girðingar til að tryggja að fólk sé ekki að lenda í vandræðum með greiðslubyrði litið fram á við.“ Hann segir að ef yfirvöld hefðu hlustað á ítrekuð varnaðarorð SI í gegnum tíðina væri þjóðfélagið ekki í þeirri stöðu sem það er í í dag. „Við viljum stöðugleika á þennan markað og að uppbygging sé í samræmi við þörf. Þannig er það ekki í dag.“ 

Vaxtahækkanir hafa áhrif á eftirspurn og framboð á sama tíma

Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Seðlabankinn hafi brugðist við hækkandi verðbólgu með vaxtahækkunum og segir Ingólfur að gallinn við vaxtahækkanirnar sé að verið sé að hafa áhrif á eftirspurnarhlutann og framboðshlutann á sama tíma. Vaxtagjöld íbúðalána hækki ásamt því sem fjármagnskostnaður framkvæmdaraðila hækki. „Vaxtatækið er ekki fullkomið tæki til að taka á þessu.“ 

Heimatilbúinn vandi og lausnin í höndum stjórnvalda

Ingólfur segir jafnframt í Morgunblaðinu að ef framboðsvandinn á íbúðamarkaði yrði leystur og verðþrýstingur minnkaði, væri verðbólgan líklega að lækka tiltölulega hratt, verðbólgumarkmið Seðlabankans næðust fyrr og verðbólguvæntingar yrðu frekar í markmiði bankans og þar með yrði minni þörf fyrir vaxtahækkanir af hálfu SÍ. „Þá væri að birtast mun jákvæðari mynd. Þessi vandi okkar er heimatilbúinn og lausnin er í höndum stjórnvalda.“ 

Morgunblaðið / mbl.is, 30. september 2021.

Morgunbladid-30-09-2021-2-