Fréttasafn16. nóv. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Eina ráðið við aukinni fólksfjölgun er að byggja meira

Ef spá Hagstofunnar um fjölgun íbúa gengur eftir, þó ekki væri nema hluti af henni, þá er mikil þörf á auknum fjölda íbúða á næstu árum, segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Aðspurður um hvernig bregðast eigi við því segir hann bara eitt ráð og það er að byggja meira. „Sveitarfélög girði sig í brók og geri betur í að bjóða land til íbúðabygginga en það hefur skort talsvert upp á það hér á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst hjá Reykjavíkurborg á síðustu árum. Það hefur valdið þessum skorti og síðan þá aftur hafa afleiðingar verið þessi mikla verðhækkun á íbúðarhúsnæði.“

Ingólfur segir að á þessu ári höfum við séð mikla fólksfjölgun sem komi til af því að það er lítið atvinnuleysi og skortur á vinnuafli sem kallar á innflutning á vinnuafli sem eykur síðan eftirspurn eftir húsnæði. „Þetta er ofan í ástand þar sem er talsverð uppsöfnuð þörf sem metin er í kringum 5.000 íbúðir af Íbúðalánasjóði nýverið og það sem er að detta inn á markaðinn af nýju húsnæði á þessu ári er ekki nándar nærri það sem þörfin er fyrir.“

Hann segir að vegna þéttinga byggðar og vegna þeirra tafa sem það myndar í kerfinu þá séu færri íbúðir á dagskránni fram til ársins 2020 samkvæmt spá Samtaka iðnaðarins og muni þar um 7-800 íbúðir.

Hér er hægt að hlusta á umfjöllunina í morgunþættir Rásar 2 í heild sinni.