Fréttasafn15. ágú. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Einboðið að halda áfram með Allir vinna

Rætt er við Björgu Ástu Þórðardóttur, sviðsstjóra mannvirkjasviðs SI, um átakið Allir vinna í hádegisfréttum RÚV þar sem virðisaukaskattur vegna vinnu vegna viðhalds og endurbóta hefur verið endurgreiddur að fullu en á að lækka í 60% um mánaðarmótin. Hún segir tíðarfar í sumar hafa hentað illa til viðhaldsvinnu og þar að auki verði afgangur af þeim fjármunum sem ætlaðir hafa verið í endurgreiðslu hjá ríkinu. Því sé einboðið að halda átakinu áfram. 

Hefur tekist vel til með átakið

Björg Ásta segir að hundrað prósent endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu og hönnun á íbúðarhúsnæði hafi tekist vel til til þess að vera hvati til viðhalds. „Jafnframt teljum við að það hafi tekist vel til til þess að neytendur þeir raunverulega velja fyrirtæki sem gefa frekar upp til skatts og vinnur þannig gegn svartri atvinnustarfsemi ásamt því að þetta skapar störf og viðheldur verðmætum eigna.“ 

Þegar fréttamaður spyr hvort verð á húsnæði eigi eftir að hækka þegar átakinu lýkur segir Björg Ásta að auðvitað hafi þetta allt áhrif á byggingarkostnað og álögur þar á meðal. „Þó svo við höfum ekki gert greiningu á því má alveg gera ráð fyrir því að einhverju marki.“

Þá segir Björg Ásta í frétt RÚV að tímasetning sé gríðarlega óhagstæða vegna veðurskilyrða í sumar sem hafi komið í veg fyrir viðhaldsframkvæmdir.

RÚV, 15. ágúst 2022.