Fréttasafn



11. nóv. 2019 Almennar fréttir Mannvirki

Einfalda á regluverk og verkferla á byggingamarkaði

Í Fréttablaðinu um helgina var rætt við Söndru Hlíf Ocares, verkefnastjóra Byggingavettvangsins,  sem Samtök iðnaðarins standa meðal annarra að, um útfærslur á tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar um úrbætur í húsnæðismálum er snúa að byggingarmálum með auknum þætti rafrænnar stjórnsýslu og einföldun regluverks sem kynntar voru á fundi í morgun. „Heilt yfir snúa útfærslurnar að því að einfalda regluverk og verkferla til þess að byggingarferlið verði skilvirkara og framleiðni aukin. Þannig náum við að stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað sem skilar sér í lægra húsnæðisverði.“ Hún segir að við höfum verið að byggja of einsleitt húsnæði þar sem regluverkið hafi m.a. ekki heimilað ákveðna nýsköpun né veitt svigrúm til að byggja hagkvæmar íbúðir. „Ég er sannfærð um að þessar metnaðarfullu tillögur sem verða kynntar á mánudaginn munu auðvelda byggingu húsnæðis af því tagi sem hefur verið vöntun á.“ 

Sandra-Hlif-Ocares-2019_1572876870565Innleiðing á rafrænum lausnum

Í fréttinni kemur fram að frá árinu 2011 hafi átt sér stað uppbygging á rafrænni byggingargátt með það að markmiði að hægt sé að gefa út byggingarleyfi rafrænt, með því að efla þá vinnu og víkka hlutverk þeirrar gáttar munu ferlar verða einfaldari, skilvirkni og gagnsæi aukast. „Við viljum ganga inn í fjórðu iðnbyltinguna með rafrænni stjórnsýslu, með einföldum hlut eins og að skylda sveitarfélögin til að nota Byggingargáttina og að innleiða rafrænar undirskriftir inn í gáttina má stytta byggingartíma og lækka byggingarkostnað sem síðan skilar sér í lægra byggingarverði.“ Hún bætir við að það muni hafa meiri áhrif en marga grunar og tekur dæmi. „Eins og staðan er í dag þarf að prenta allar teikningar út, og keyra með afritin til stofnana til að fá stimpla. Eins og gefur að skilja er það tímafrekt og dýrt. Annað dæmi er að svo hægt sé að fá nákvæmar tölur um það hversu mikið af húsnæði er í byggingu, þarf starfsmaður Samtaka iðnaðarins að keyra í þrjár vikur um landið og handtelja íbúðir í byggingu. Með öflugri innleiðingu á rafrænum lausnum eins og Byggingargáttin er munu þessir hlutir heyra sögunni til.“

Einhugur um að leysa málin

Þegar blaðamaður spyr Söndru hvort mikil samstaða sé um breytingarnar sem útfærslur Byggingarvettvangsins fela í sér segir hún að svo sé. „Það er mikill einhugur um að nú sé kominn tími til að leysa þessi mál enda er húsnæði ein stærsta fjárfesting fólks á æviskeiði þess. Stjórnvöld hafa lagt aukna áherslu á að létta á regluverkinu í byggingariðnaði og skerpa á regluverkinu og tillögurnar sem komu fram í skýrslu átakshópsins gefa skýr skilaboð um að það eigi að taka þetta föstum tökum.“ 

Fréttablaðið / Frettabladid.is / Vísir, 9. nóvember 2019.