Fréttasafn



8. jan. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

Einfalda þarf regluverk fyrir nýsköpun í byggingariðnaði

Stjórnvöld, byggingaraðilar og samfélagið allt þarf að vera á tánum gagnvart nýjum straumum og stefnum sem í fyrstu virðast umbylta öllu því sem við áður þekktum en á endanum bæta lífsgæði okkar og búa okkur betra umhverfi. Til þess þarf einfalt regluverk sem leyfir góðum hugmyndum og nýsköpun á sviði byggingariðnaðarins að verða að veruleika. Þetta segir Sandra Hlíf Ocares, verkefnastjóri Íslenska byggingavettvangsins, í grein sinni í Markaðnum í dag með yfirskriftinni Í takt við tímann. Hún segir að mikil uppbygging hafi átt sér stað hér á landi á undanförnum árum en betur megi ef duga skuli. Byggja þurfi 55 þúsund íbúðir til viðbótar um land allt ef mæta eigi þeirri þörf sem blasi við næstu þrjátíu árin. En til þess að uppbyggingin gagnist til framtíðar þurfi bæði framsýni og sveigjanleika á vettvangi stjórnvalda sem setji reglurnar. 

Sandra-Hlif-Ocares-2019_1572876870565Sandra segir byggingaraðila þurfa svigrúm til að koma nýjum hugmyndum og betri lausnum í framkvæmd til að tryggja vandað húsnæði í takt við tímann. Regluverkið megi ekki tefja framfarir, nýsköpun eða uppbyggingu. Þá segir hún að í lok síðasta árs hafi ráðherra húsnæðismála kynnt ítarlegar útfærslur Byggingavettvangsins á tillögum átakshóps ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem stuðli að umbótum í byggingariðnaði, og breytingum á lögum og reglum sem tryggja eiga umrætt svigrúm fyrir byggingaraðila. Fyrsta stóra skrefið hafi verið tekið um áramótin þegar notkun Byggingargáttar var gerð að lagaskyldu fyrir sveitarfélögin. Hún segir það skipta sköpum fyrir alla sem koma að byggingu húsnæðis því gáttin flýti fyrir útgáfu leyfa og skilum gagna, auðveldi eftirlit, bæti samskipti og auki aðgengi að upplýsingum um stöðu uppbyggingar húsnæðis í landinu. Hún segir að áframhaldandi vinna muni eiga sér stað á vettvangi framkvæmdarvalds og löggjafans en Byggingavettvangurinn muni fylgja málinu þétt eftir. 

Hér er hægt að lesa grein Söndru í heild sinni.

Fréttablaðið/Markaðurinn / Frettabladid.is, 8. janúar 2020.