Fréttasafn3. júl. 2018 Almennar fréttir

Einn af hverjum fimm í iðnaði

Iðnaður er umfangsmikill á íslenskum vinnumarkaði en ríflega 40 þúsund manns störfuðu í iðnaði á síðastliðnu ári eða einn af hverjum fimm launþegum í landinu. Eru störfin fjölbreytileg á sviði framleiðsluiðnaðar, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerðar og tækni- og hugverkaiðnaðar. Þetta kemur fram í nýrri greiningu SI um vinnumarkaðinn. Þar segir jafnframt að iðnaðarstarfsemi hér á landi sé afar mikilvægur þáttur í gangverki hagkerfisins. Skapar greinin margvísleg störf á fjölmörgum sviðum samfélagsins. Ef tekið er með óbeint framlag greinarinnar til atvinnusköpunar er umfang hennar hins vegar umtalsvert meira en í nýlegu mati Business Europe komi fram að tíu störf í iðnaði skapi ríflega 6 störf í öðrum greinum hagkerfisins s.s. í ýmsum þjónustugreinum. Séu tölurnar yfirfærðar á Ísland megi því leiða líkum að því að iðnaðarstarfsemi skapi um 25 þúsund afleidd störf og iðnaðurinn standi því beint og óbeint undir einum þriðja af öllum störfum landsins. 

Hér er hægt að nálgast greiningu SI um vinnumarkaðinn.