Fréttasafn7. des. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Nýsköpun

Einn alþjóðlegur sérfræðingur skapar fimm

„Það er talað um að einn alþjóðlegur sérfræðingur sem ráðinn er inn á íslenskan vinnustað, skapi fimm sérfræðinga,“ segir Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, í viðtali Rakelar Sveinsdóttur á Vísi. Þar kemur fram að gífurleg vöntun sé á sérfræðingum samkvæmt öllum útreikningum. Á sama tíma sýni niðurstöður nýrrar könnunar að erlendir sérfræðingar fái ekki störf í samræmi við menntun þeirra og reynslu. „Við höfum verið að heyra dæmisögur um þetta lengi en eitt af því sem er svo gott við að sjá þessar niðurstöður er að nú erum við einfaldlega komin með upplýsingar um það hvað veldur og þar virðist það einna helst vera ráðningaferlið sem atvinnulífið þarf að taka til endurskoðunar.“

Á Vísi kemur fram að Nanna starfi fyrir hugverkaiðnaðinn hjá SI en samkvæmt mannauðs- og færnisgreiningu SI árið 2022 vanti þessum geira þúsundir sérfræðinga til starfa á næstu fimm árum eigi vaxtaáætlanir í hugverkaiðnaði að ganga eftir, sérstaklega séhorft til starfa sem byggja á menntun í STEAM greinum, en það eru þá störf sem heyra til vísinda, tækni, verkfræði, lista og stærðfræði. „Þetta eru þó fleiri störf og alls ekki einungis bundin við raungreinar eða vöntun á forriturum eins og margir halda. Hér erum við líka að tala um sérfræðinga á sviði til dæmis markaðsmála eða reksturs. Tökum sem dæmi fyrirtæki sem vill hasla sér völl á mörkuðum í Bandaríkjunum eða Evrópu. Að ná árangri í því kallar á mikla sérþekkingu á þessum mörkuðum. Til dæmis á sviði markaðsmála.“

Bæta þarf úr tengingu á milli atvinnulífs og náms 

Þegar Nanna er spurð hvað megi áætla að margir af þessum þúsundum sérfræðinga sem vantar komi úr íslensku skólakerfi? „Við höfum viljað fara varlega í að nefna einhverjar tölur í því samhengi. Einfaldlega vegna þess að margt spilar inn í. Segjum sem svo að eitt þúsund manns útskrifist úr verk- og tæknigreinunum á Íslandi árlega. Margir úr þessum hópi fara síðan erlendis í frekari nám en eins hefur vantað upp á að þessir nemendur séu tilbúnir í þau störf sem vantar strax við útskrift. Í nágrannalöndum okkar í Evrópu er ekki óalgengt að fólk fái tækifæri til að vera í starfsnámi sem samsvarar heilli önn. Þessa brú á milli atvinnulífs og náms vantar á Íslandi og er meðal þess sem SI hefur bent á að þurfa að bæta úr.“

Með ráðningu erlendra sérfræðinga sækjum við mikla þekkingu

Nanna segir í viðtalinu að ákveðinn misskilnings gæti í því í hverju starfsnám felist. „Sumir telja að starfsnám snúist um að fá fólk til starfa fyrir nánast ekki neitt. Svo er alls ekki. Það er gríðarlega kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki að þjálfa starfsfólk og ekkert óalgengt að það taki hálft ár til ár. Á sama tíma fær ungt fólk haldbæra reynslu og þekkingu af því út á hvað starfið gengur og er þá komið með meiri reynslu til að ráða sig í sérfræðingastörfin þegar það útskrifast úr námi.“ Hún segir að þótt breytingar yrðu gerðar á skólastigum, myndi það samt kalla á að alþjóðlega sérfræðinga þyrfti fyrir íslenskt atvinnulíf. „Enda eðlilegt að lítið samfélag eins og Ísland geti aldrei kennt allt í skólum. Verðmæti alþjóðlegra sérfræðinga eru fyrir vikið enn meiri, því að með ráðningu þeirra inn í íslensk fyrirtæki erum við að sækja svo mikla þekkingu erlendis frá sem við um leið getum frekar innleitt hér.“

Á Vísi er hægt að lesa viðtalið við Nönnu í heild sinni.

Vísir, 7. desember 2023.

Mynd: Vísir/Vilhelm