Fréttasafn15. sep. 2021 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Eitt öflugt innviðaráðuneyti til að hraða umbótum

Samtök iðnaðarins hafa talað fyrir mikilvægi þess að koma á einu öflugu innviðaráðuneyti. Tillagan felur ekki í sér stofnun nýs ráðuneytis heldur sameiningu verkefna sem tengjast byggingarog mannvirkjagerð undir einn hatt en nú eru verkefni sem tengjast uppbyggingu húsnæðis og innviða hjá mörgum ráðuneytum. Þetta segir Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs SI, í grein í ViðskiptaMogganum. Hún segir að nú sé rétti tíminn til að setja bygginga- og mannvirkjagerð ofar á forgangslistann. Ávinningurinn sé augljós. Með einu öflugu innviðaráðuneyti verði hægt að hraða umbótum og allri uppbyggingu, fólki og fyrirtækjum til heilla. Þá segir hún að með slíkri sameiningu í eitt innviðaráðuneyti verði til skilvirkni, aukin þekking og betra upplýsingaflæði milli sérfræðinga innan stjórnsýslunnar í þessum mikilvæga málaflokki. 

Án góðra innviða er ekki hægt að auka samkeppnishæfni

Jóhanna Klara segir að hér á landi hafi ekki tekist að skapa stöðugt umhverfi uppbyggingar. Þess í stað hafi uppbygging einkennst af átaksverkefnum, oft í kjölfar alvarlegs húsnæðisskorts. Kerfi innviða hér á landi sé umfangsmikið. Í nýlegri skýrslu SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga komi fram að endurstofnvirði innviða sé um 4.500 ma.kr. eða sem nemi 155% af landsframleiðslu. Hún segir að þetta sé talsvert umfangsmeira kerfi en finnist víðast hvar í öðrum löndum og endurspegli það mikilvægi og stóran þátt innviða í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Án góðra innviða verði ekki hægt að auka samkeppnishæfni landsins eða ráðast í fjölbreyttari atvinnuuppbyggingu. Bygginga- og mannvirkjagerð sé sú grein hagkerfisins sem hafi að stærstum hluta staðið að baki uppbyggingu og viðhaldi innviðakerfisins og greinin hafi leikið lykilhlutverk í hagvexti undanfarinna ára.

Ekki unnið með eins skilvirkum hætti og hægt væri

Í greininni segir Jóhanna Klara að jákvæðar skipulagsbreytingar hafi þegar átt sér stað á þessu kjörtímabili með sameiningu byggingarmála innan félagsmálaráðuneytisins og stofnun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Við upphaf nýs kjörtímabils gefist þó tækifæri til að gera enn betur. Skipulagsmálin séu enn hjá umhverfisráðuneytinu og uppbygging annarra innviða en bygginga sé hjá samgönguráðuneytinu. Sérfræðingar með mikla færni og þekkingu á sviði bygginga- og mannvirkjagerðar bæði í innviðum og húsnæði innan ráðuneytanna séu því ekki sameinaðir og vinni því óhjákvæmilega ekki með eins skilvirkum hætti og hægt væri.

Ráðast þarf í breytingar á regluverkinu

Þá segir Jóhanna Klara að með einu innviðaráðuneyti verði einnig mögulegt að grípa tækifærin og taka þátt í þeim miklu breytingum sem eiga sér stað í þessum iðnaði. Bygginga- og mannvirkjagerð standi á tímamótum bæði hér á landi og á heimsvísu. Ráðast þurfi í öflugar breytingar á regluverkinu svo að hægt verði að draga úr kostnaði, byggja rétt, tryggja gæði og síðast en ekki síst mæta sívaxandi kröfum um grænni uppbyggingu með þróun og nýsköpun.

Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.

Morgunblaðið, 15. september 2021.

VidskiptaMoggi-15-09-2021-2-