Fréttasafn10. feb. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Ekki bara blikur á lofti heldur óveðursský yfir landinu

„Við höfum bent á það að það eru óveðursský yfir Íslandi í efnahagslegu tilliti. Hagkerfið hefur kólnað mikið núna eftir mikinn vöxt og við sjáum það í greiningu sem er fjallað um á forsíðu Fréttablaðsins í dag að landsframleiðsla á mann minnkaði í fyrra og minnkar aftur í ár. Þetta er fátítt, gerðist síðast 2008 og þar áður fyrir um þremur áratugum.“ Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í viðtali hjá Heimi og Gulla Í bítinu á Bylgjunni í dag.

Mesti samdráttur í útflutningstekjum í þrjá áratugi

„Þetta er einn mælikvarðinn en við sjáum að launin hafa hækkað mikið og þau eru há í alþjóðlegum samanburði. Kaupmáttur hefur aukist mikið á síðustu árum. Það sama má líka segja um skattana, hér á Íslandi eru skattar og opinber gjöld há í alþjóðlegum samanburði.“ Sigurður segir krónuna vera sterka. „Sögulega séð hefur krónan verið eins og sveiflujafnari í hagkerfinu þannig að þegar hafa komið áföll eins og við erum að upplifa núna þá hefur krónan gefið eftir og aukið samkeppnisstöðuna þannig að við höldum uppi verðmætasköpuninni, flytjum meira út og fáum meiri gjaldeyri og getum þannig komist í gegnum lægðina. En það er ekki að gerast núna þannig að aðlögunin á sér stað í gegnum vinnumarkaðinn. Við sjáum það að fyrirtækin eru að hagræða, atvinnuleysi er orðið býsna hátt í sögulegu samhengi. Útflutningstekjurnar eru að dragast saman og þetta er mesti samdráttur núna í þrjá áratugi, síðan í kringum 1990.“

Verið að minnka súrefnið til fyrirtækjanna

Þegar Sigurður er spurður hvar samdrátturinn sé helst segir hann það vera í öllum helstu greinum. „Í ferðaþjónustunni með falli Wow air þá hefur ferðamönnum fækkað fúr úr 2,4 milljónum í um 2 milljónir á síðasta ári. Loðnubrestur hefur orðið tvö ár í röð. Við sjáum að það er verið að framleiða minna af áli og verður áfram á þessu ári. Við sjáum það líka að kórónaveiran virðist vera að hafa áhrif hjá ferðaþjónustunni en líka bara hagvaxtarhorfur í heiminum sem geta smitast hingað. Við sjáum að fjárfestingar atvinnuveganna minnka og útlán bankanna eru að dragast saman. Það er smám saman verið að minnka súrefnið til fyrirtækjanna. Þegar þetta allt kemur saman þá sjáum við það að það eru ekki bara blikur á lofti heldur óveðursský.“

Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.