Fréttasafn



25. mar. 2021 Almennar fréttir Mannvirki

Ekki færri íbúðir í byggingu í fjögur ár

Í nýrri greiningu SI um talningu á íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu, í nágrenni þess og á Norðurlandi kemur fram að verulegur samdráttur er í fjölda íbúða í byggingu. Í þeim sveitarfélögum þar sem talning SI fór fram eru nú 4.610 íbúðir í byggingu og hefur þeim fækkað um 1.131 á milli ára. Hefur ekki mælst meiri fækkun íbúða í byggingu síðan SI hófu íbúðatalningu á vormánuðum 2010. Samdráttur íbúða í byggingu á landinu mælist um 20% frá talningu SI á sama tíma 2020. Mestur er samdrátturinn á íbúðum sem eru á byggingarstigum 4 og 5 eða um 23% á milli ára. Um er að ræða íbúðir sem eru orðnar fokheldar og að því að vera tilbúnar til innréttinga. 

Í greiningunni segir að þetta boði að veruleg fækkun gæti orðið á íbúðum á síðustu byggingarstigum á næstunni. Mjög fáar íbúðir eru á fyrstu byggingarstigum og er það áhyggjuefni vegna væntanlegs framboðs á fullbúnu íbúðarhúsnæði á næstu árum. 

Mestur samdráttur á höfuðborgarsvæðinu

Samdrátturinn mælist mestur á höfuðborgarsvæðinu þar sem 3.523 íbúðir eru í byggingu og hafa þær ekki verið færri síðan í mars 2017, eða í fjögur ár. Eru íbúðir í byggingu á svæðinu 929 færri en á sama tíma í fyrra. Ekki hefur áður mælst meiri fækkun íbúða í byggingu á svæðinu frá því að mælingar hófust árið 2010. Nemur samdrátturinn á milli ára 21%. Talsvert minni samdráttur er í íbúðum í byggingu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þar eru nú 869 íbúðir í byggingu sem er 72 íbúðum færra en á sama tíma fyrir ári. Nemur samdrátturinn 8%. Umtalsverður samdráttur er í íbúðarbyggingu á Norðurlandi. Þar eru nú 218 íbúðir í byggingu sem er 130 íbúðum færra en á sama tíma fyrir ári. Nemur samdrátturinn 37%. Mikill lóðaskortur hamlar uppbyggingu íbúða á Akureyri um þessar mundir.  

Hér er hægt að nálgast greiningu SI um íbúðatalninguna í heild sinni.

Ibudir-a-hbsv.-1