Ekki næg áhrif af breytingu Seðlabankans á lánþegaskilyrðum
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í fréttum RÚV mikla óvissu ríkja á húsnæðismarkaði í kjölfar dóms Hæstaréttar um lánaskilmála. „Síðasta áfallið er dómur Hæstaréttar, þar sem í kjölfarið hefur dregið mjög úr húsnæðislánum. Í rauninni bætir það bara gráu ofan á svart en fram að því hefur margt haft áhrif.“ Hann nefnir sem dæmi háa vexti og lóðaskort, auk þess hafi lánþegaskilyrði Seðlabankans valdið því að fólk komist síður inn á markaðinn og valdið hækkun leiguverðs og meiri verðbólgu.
Þarf að horfa á skilyrði greiðslumats
„Það er jákvætt að sjá Seðlabankann horfa á lánþegaskilyrðin og við lítum á það sem ákveðna viðurkenningu á vandanum,“ segir Sigurður í fréttinni en hins vegar sé nær útilokað að aðgerðir Seðlabankans hreyfi við markaðinum eða hafi áhrif einar og sér. „Það sem Seðlabankinn þarf í raun og veru að gera er að horfa á greiðslumatið og þau skilyrði sem eru þar og það er auðvitað ekkert eðlilegt að fólki sé ætlað að greiða hærri húsaleigu heldur en mögulegar afborganir af húsnæðisláni. Það er fullt af fólki sem kemst ekki inn á markaðinn vegna þessara skilyrða.“
Lánþegaskilyrði Seðlabankans skiptir langmestu máli
Þá segir Sigurður í fréttinni að þörf sé á ríkara samstarfi ríkis og sveitarfélaga varðandi uppbyggingu og að auka þurfi lóðaframboð, huga að hvötum til uppbyggingar og horfa lengra fram í tímann í skipulagsmálum en lánþegaskilyrði Seðlabankans skipti hins vegar langmestu máli.
RÚV, 2. nóvember 2025.

