Fréttasafn7. mar. 2022 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Ekki sést annar eins húsnæðisskortur

„Það hefur ekki sést annar eins húsnæðisskortur í annan tíma. Þörfin er sem nemur 4.000 íbúðum á ári, en framboðið er um 1.500 íbúðir,“ segir Ingólfur Bender, í frétt Fréttablaðsins. Hann segir opinbera aðila hafa vanmetið íbúafjölgun í landinu á síðustu árum. „En þess utan vantar nýtt land undir byggingar, lóðaskorturinn stafar af því að byggingarferlið tekur of langan tíma og þétting byggðar, sem rík áhersla er lögð á nú um stundir, er svifasein í framkvæmd.“ 

Þá segir Ingólfur í fréttinni að alla yfirsýn vanti í húsnæðisuppbyggingu á landinu, forkólfar borgar jafnt sem bæja hugsi málin hver í sínum ranni, en binda megi vonir við nýtt innviða­ráðuneyti í þeim efnum „Heildarmagnið af húsnæði sem nú er alla jafna í boði dugar í 20 daga. Það er allt framboðið.“ 

Meiri hörgull á húsnæði vegna erlends vinnuafls sem vantar

Jafnframt kemur fram í fréttinni að útlit sé fyrir að atvinnumarkaðurinn á Íslandi verði í spennitreyju á næstu árum, en þar fari saman gríðarlegur skortur á vinnuafli og meiri hörgull á húsnæði en þekkst hefur um áratugaskeið. Einnig er rætt við Ara Klæng Jónsson, doktor í mannfjöldafræðum við Háskóla Íslands, sem segir að það þurfi heldur betur að spýta í lófana. „Innviðirnir eru ekki eins sterkir og þeir þyrftu að vera.“ Hann segir að eklan á húsnæðismarkaði rími engan veginn við þær þúsundir sem vanti af erlendu vinnuafli en það fólk eigi í engin hús að venda. „Okkur vantar 12 þúsund manns til vinnu sem er eins og tveir og hálfur fæðingarárgangur af börnum.“

Fréttablaðið  / Frettabladid.is , 5. mars 2022.

Frettabladid-05-03-2022