Fréttasafn



10. okt. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Ekki til lóðir né skipulag til að byggja 5.000 íbúðir á ári

Rætt er við Gylfa Gíslason framkvæmdastjóra Jáverks og formann Mannvirkjaráðs SI í fréttum Stöðvar 2/Vísis um stöðuna á íbúðamarkaðinum. Í fréttinni kemur fram að Gylfi er með um sjö hundruð íbúðir í byggingu um þessar mundir og segir hækkandi vexti og aukinn byggingakostnað sliga verktaka. „Allt þýðir þetta að framleiðslukostnaður á lítilli íbúð hefur hækkað alveg gríðarlega.“ Þegar hann er spurður hvort staðan hafi snarversnað á síðustu misserum segir hann: „Já, bara á þessu ári. Það er algjör kúvending.“

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, hefur áætlað að byggja þurfi 5.000 íbúðir á ári næstu árin og kemur fram í fréttinni að það verði að teljast óraunhæf. „Ég held við höfum einu sinni náð að byggja þrjú þúsund íbúðir á síðustu tíu árum. Við eigum ekki lóðir, við eigum ekki skipulag, þetta er auðvitað ekki að fara að gerast.“

Gat eftir eitt til tvö ár

Einnig kemur fram að verktakar geti ekki endilega treyst á að íbúðirnar seljist þar sem skammtímaeftirspurn hafi dregist saman samhliða vaxtahækkunum og sala á nýjum íbúðum virðist því hafa dregist saman. Í fréttinni kemur fram að í september í fyrra voru nýjar, fullbúnar og óseldar íbúðir 131. Talan hafi verið komin upp í 238 í mars á þessu ári og nú standi hún í 777. Þetta sé sexföldun milli ára, samkvæmt greiningu HMS. Gylfi telur að verkefni næstu eins til tveggja ára verði kláruð. „Svo spái ég því að komi gat. Kannski ekki hálfgert stopp en við erum allavega alls ekki að fara að vinna upp í þá þörf sem við erum að spá að sé fyrir hendi.“

Stöð 2/Vísir, 9. október 2023.