Ekki verið að fullnægja orkuþörf samfélagsins
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, var meðal gesta í Silfrinu á RÚV þar sem meðal annars var rætt um orkumál. Sigurður segir í þættinum að staðan hjá okkur sé sú að það sé ekki verið að fullnægja orkuþörf samfélagsins. „Það er verið að skerða orku til notenda eins og málframleiðslu, gagnavera, varmaveitna og fiskimjölsverksmiðjur. Þannig að niðurstaðan af því er sú að við erum að brenna olíu til dæmis til að hita hús sem er mikið afturhvarf til fortíðar og við erum á sama tíma líka að draga úr framleiðslu sem þýðir að við sem samfélag erum að skapa minni verðmæti. Þetta er vegna þess að annars vegar er ekki næg orka framleidd, hins vegar vegna þess að sú orka sem er framleidd að við náum ekki að koma henni til þeirra sem að vilja nýta hana.“
Brotalamir í orkukerfinu
Sigurður segir að það séu brotalamir í kerfinu. „Það er of mikið af orku sem að fer forgörðum sem við náum ekki að nýta, sem er búið að virka en ekki nýtt vegna þess að innviðirnir eru ekki nægilega traustir. Það þarf þá línur til þess að koma orkunni á rétta staði. Framundan eru líka stór viðfangsefni sem tengjast loftslagsmálum sem eru orkuskiptin. Orkuskiptin eru eitthvað sem við viljum fara í og samkvæmt orkustefnu eru á landi, í lofti og hafi.“
Hitaveituvæðingin var bylting í orkuskiptum
Í þættinum kemur fram að í orkuskiptin þurfi 1.200 megawött af orku sem sé mikið. „Við erum að nota alla þessa orku í dag en við erum að flytja hana inn fyrst og fremst í formi olíu og erum að brenna hana. Þannig að það er auðvitað mjög slæmt fyrir umhverfið.“ Sigurður segir að þarna sé stórt tækifæri fyrir okkur, til þess annars vegar að gera gagn varðandi loftslagsmálin og hins vegar sé þetta efnahagslegt framfaramál. „Fyrir ca hálfri öld síðan þá réðumst við sem samfélag í mikla byltingu í orkuskiptum sem var hitaveituvæðingin. Sem gerði það að verkum að við hættum þá að flytja inn olíu og kannski kol og fórum að kynda hús með jarðhitanum. Við höfum séð gamlar myndir af Reykjavík og fleiri stöðum þar sem kolareykur er yfir byggðinni sem er nú sem betur fer ekki raunin í dag.“ Einnig nefnir Sigurður orkusóun. „Orkan sem er framleidd hún að einhverju leyti nýtist ekki vegna þess að okkur tekst ekki að flytja hana þangað sem að þarf að nýta hana.“
Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.
Silfrið, 6. febrúar 2022.
Aðalheiður Ámundardóttir, fréttastjóri á Fréttablaðinu, Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttamaður RÚV, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.