Fréttasafn



27. júl. 2017 Almennar fréttir Mannvirki

Embættið ætlar að hlusta á gagnrýni SI

Í Morgunblaðinu er rætt við Nikulás Úlfar Másson, byggingarfulltrúa Reykjavíkur, sem er ósammála þeim fullyrðingum frá Samtökum iðnaðarins að málsmeðferð byggingarleyfa taki of langan tíma vegna vinnubragða embættisins. „Málsmeðferð hjá okkur er í beinu samræmi við gæði þeirra gagna sem okkur berast. Okkur er mjög umhugað um það að afgreiða mál sem fyrst sem berast okkur enda erum við með allt að 110 mál á vikulegum afgreiðslufundum og viljum því afgreiða þau og samþykkja sem fyrst,“ segir Nikulás við Magnús Heimi Jónasson, blaðamann. „Málum er ekki frestað hér að geðþótta eins og ýjað er að. Öll okka rvinna er bundin í mjög skýr lög og reglugerðir sem okkur ber að framfylgja.“ 

Í fréttinni segir Nikulás að besta leið fyrir umsóknaraðila til að stytta málsmeðferðartímann sé að koma með vel undirbúnar umsóknir, en hann segir ýmis gögn og upplýsingar oft vanta. „Hluti af þessu er það að menn eru að flýta sér mjög mikið ,eins og þarna kemur fram eru oft miklir aurar undir, þá koma mál hingað oft óundirbúin, það er jafnvel ekki búið að ganga frá lóðamálum. Viðkomandi umsókn er ekki einu sinni hægt að setja á lóð. Þá er oft ekki búið að ganga frá samráði við lögboðna aðila eins og t.d. Minjastofnun Íslands, en svona hlutir tefja mál,“ segir Nikulás og bætir við að misskilningur séum hvernig umsóknir eru afgreiddar. „Það gætir auk þess misskilnings varðandi afgreiðslu byggingarleyfisumsókna í málflutningi SI, en auk embættis byggingarfulltrúa fara slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur og Vinnueftirlit ríkisins yfir innsendar teikningar og gera athugasemdir viðþær í samræmi við þau lög og reglugerðir sem þau starfa eftir. Auk þess getur umsókn tekið tíma ef í ljós kemur að skipulagsfulltrúi þarf að breyta skipulagi til að mögulegt sé að taka umsókn til afgreiðslu, eins og er raunin með nokkur af þeim dæmum sem tekin hafa verið um langa afgreiðslu mála hjá okkur.“ 

Spurður um gagnrýni SI þess efnis að sumarleyfi starfsmanna hafi valdið töfum bendir hann á að reynt hafi verið eftir bestu getu að halda embættinu gangandi yfir sumarleyfistímann. „Við fórum mjög vandlega yfir sumarfrí starfsfólks og unnum mjög vel í því að hér yrði nægur starfskraftur til að sinna að mestu leyti því sem við þurfum að sinna og það er raunin. Þegar ég kom úr þriggja vikna sumarfríi fór ég yfir það sem hérna hafði gerst og það eru kannski einhver mál sem fóru ekki á fyrsta fund heldur næsta fund á eftir og þau hafa kannski tafist um eina í mesta lagi tvær vikur vegna sumarleyfa.“ 

Þá er haft eftir honum í fréttinni að embættið muni hlusta á gagnrýni frá SI, en bendir hins vegar á að slíkar breytingar gætu þurft aðkomu löggjafans. „Að sjálfsögðu ætlum við að hlusta á þessi samtök og ígrunda vel og vandlega þessar tillögur sem þau koma með en við teljum okkur vera að vinna mjög góða vinnu hérna. Við erum hér með vottað gæðakerfi, eina byggingarfulltrúaembættið á landinu með vottað gæðakerfi sem var tekið upp til að tryggja sem faglegustu og bestu afgreiðsluna fyrir okkar viðskiptavini.“

Morgunblaðið, 27. júlí 2017.