Fréttasafn15. mar. 2022

Endurgreiðsla R&Þ forsenda áframhalds í vexti leikjaiðnaðar

Þorgeir Frímann Óðinsson, formaður Samtaka leikjaframleiðenda - IGI og framkvæmdastjóri Directive Games á Íslandi, var gestur í Morgunútvarpi Rásar 2 þar sem hann fór yfir vöxt leikjaiðnaðar síðastliðin tvö ár. Í þættinum kemur fram að 35% aukning hafi orðið á starfsmannafjölda þeirra sem starfa í leikjaiðnaði frá því um miðbik árs 2020 til loka 2021. Auk þess sem fjárfesting í leikjafyrirtækjum hafi sjaldan verið meiri og aldrei í eins fjölbreyttum fyrirtækjum.

Þorgeir segir í þættinum að grundvallaratriði fyrir vexti í leikjaiðnaði hafi verið sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna rannsóknar- og þróunarkostnaðar hjá nýsköpunarfyrirtækjum úr 20% í 35% fyrir minni fyrirtæki og 20% í 25% fyrir þau stærri auk þess sem þak á þeim kostnaði sem má tiltaka var hækkað í 1.100 milljónir króna. Þessi aðgerð hafði þau áhrif segir hann að leikjafyrirtæki kusu að ráða starfsfólk hér á landi en ekki erlendis þar sem stuðningsumhverfi nýsköpunarfyrirtækja hér á landi varð með þessu samkeppnishæft við önnur lönd. Þá bendir Þorgeir á að leikjafyrirtæki geti starfað hvar sem er í heiminum og því sé forsendan fyrir áframhaldandi vexti þessa iðnaðar hér á landi að áfram verði stutt við nýsköpun.

Hér er hægt að nálgast viðtalið í heild sinni.