Fréttasafn



23. ágú. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Samtök fyrirtækja í líf og heilbrigðistækni

Endurkjörin formaður SLH

Á aðalfundi Samtaka fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, SLH, sem haldinn var í Húsi atvinnulífsins í gær var Marta Blöndal, framkvæmdastjóri fyrirtækjaþróunar hjá ORF líftækni, endurkjörin formaður til eins árs. Finnur Einarsson, rekstrarstjóri EpiEndo Pharmaceuticals​, Ásdís Jóhannesdóttir, forstöðumaður verkefnaskrár (Portfolio Management) í rannsóknar- og þróunardeild Össur​ar, og Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri ArcanaBio, voru endurkjörin sem meðstjórnendur til tveggja ára. Nýr inn í stjórn er Ingvar Hjálmarsson, framkvæmdastjóri NoxMedical. Benedikt Stefánsson, forstöðumaður fjárfesta- og almannatengsla Alvotech​, Matthías Leifsson, framkvæmdastjóri Leviosa​, og Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix, sitja áfram í stjórn sitt annað ár. Hlynur Ólafsson, yfirlögfræðingur Kerecis, kom inn í stjórn í stað Klöru Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra gæða- og skráningarmála Kerecis, sem sat fyrra árið af tveimur f.h. Kerecis.

Eftir að hefðbundnum aðalfundarstörfum lauk flutti Björn Örvar, stofnandi ORF líftækni, erindi þar sem hann kynnti þróun ORF á vaxtarþáttum sem notaðir eru við framleiðslu á vistkjöti.

Samtök fyrirtækja í líf- og heilbrigðistækni, SLH, voru stofnuð árið 2019 við samruna Samtaka íslenskra líftæknifyrirtækja, SÍL, sem voru stofnuð í maí 2004 og Samtaka heilbrigðisiðnaðarins, SHI, sem voru stofnuð í janúar 2011. Líf- og heilbrigðistækni er sívaxandi iðnaður á alþjóðavísu og iðnaðurinn hefur sögulega mikla þýðingu hér á landi. Tilgangur SLH er að sinna hagsmunagæslu fyrir greinina og fyrirtæki sem starfa í iðnaðinum á Íslandi með það fyrir augum að umgjörð hér á landi verði með besta móti fyrir ung og upprennandi fyrirtæki sem og stærri, rótgrónari fyrirtæki í heilbrigðis- og líftækni. Sýn SLH er að skapað verði hágæða, samkeppnishæft stuðningsumhverfi fyrir rannsóknir og þróun, skilvirkt og fyrirsjáanlegt regluverk og að iðnaðurinn njóti skilnings og virðingar hjá stjórnvöldum og almenningi.

Erla Tinna Stefánsdóttir er viðskiptastjóri SLH hjá Samtökum iðnaðarins.