Engar einbýlishúsalóðir í boði hjá Reykjavíkurborg
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins, segir í frétt Morgunblaðsins að verktakar hafi ítrekað bent á lóðaskort og að engin einbýlishúsalóð sé í boði. „Það er engin einbýlishúsalóð í boði núna. Það er því rangt að lóðir í borginni séu á hillu. Þvert á móti er lóðaskortur vandamál á þessum markaði og hann hefur verið sérstaklega mikill hjá Reykjavíkurborg. Það er mikið kallað eftir nýjum íbúðum um þessar mundir en okkar félagsmenn ná ekki að mæta eftirspurn.“ Hann segir að skorturinn hafi kynt undir verðbólgu og fyrir vikið vaxtahækkunum.
Rangt farið með hjá formanni Samfylkingarinnar
Í fréttinni er vísað í svar borgarinnar við fyrirspurn Morgunblaðsins þar sem kemur fram að engar lóðir séu til sölu undir sérbýli eða fjölbýli hjá Reykjavíkurborg í augnablikinu. Tilefni fyrirspurnarinnar er að formaður Samfylkingarinnar hafi látið þau orð falla í viðtalsþættinum Dagmálum að lóðir undir sérbýli í borginni væru „hilluvara“. Í fréttinni segir að þegar hann er spurður hvað hann hafi meint: „Ég átti bara við að það er alltaf verið að tala um að það sé lóðaskortur í Reykjavík. Nú er veruleikinn auðvitað miklu fjölbreyttari en svo að byggingarmagn einskorðist við úthlutaðar lóðir. Það eru alls konar þróunarverkefni í gangi. Varðandi einbýlishús skilst mér að það séu til lóðir sem hægt er að sækja um.“
Morgunblaðið, 18. september 2021.