Fréttasafn10. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi Umhverfis og orkumál

Engin nýmæli í þriðja orkupakkanum

Það felast engin nýmæli í þriðja orkupakkanum fyrir Íslands heldur er eingöngu verið að skerpa á þeim reglum sem nú þegar gilda og lúta að fjórum þáttum: eftirliti, neytendavernd, orkuöryggi og virkari samkeppni. Annað mál er með fjórða orkupakkann sem felur í sér nýmæli. Þetta kemur fram í viðtali Markaðarins við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.  „Við fögnum markmiðum um virkari samkeppni á markaðinum. Þessi löggjöf styrkir stöðu kaupenda, bæði atvinnulífs og almennings, gagnvart orkuvinnslu og dreifingu sem er á höndum örfárra fyrirtækja sem eru að miklu leyti í opinberri eigu. Henni er ætlað að veita orkufyrirtækjunum aðhald,“ segir Sigurður. Þar vísar Sigurður til þess að innleiðingu þriðja orkupakkans fylgi auknar valdheimildir Orkustofnunar við framkvæmd raforkueftirlits. Stofnunin fær heimildir til að áminna orkufyrirtækin og leggja á þau stjórnvaldssektir. „Við fögnum því að Orkustofnun fái ríkari heimildir til eftirlits með sérleyfisstarfseminni sem veitir fyrirtækjum sem eru að miklu leyti í opinberri eigu aukið aðhald á markaðinum,“ segir Sigurður.

Nauðsynlegt aðhald að utan

Halldór segir nauðsynlegt að hinu opinbera sé veitt aðhald að utan þegar kemur að rekstri orkufyrirtækja.„Orkustofnun fer sannarlega með eftirlit með orkumarkaðinum og þar af leiðandi fylgist hún með því að reglur sem felast í löggjöfinni séu uppfylltar hverju sinni. Það þýðir að hinu opinbera, sem á orkuframleiðsluna og flutningskerfin að mestu leyti, er veitt nauðsynlegt aðhald að utan. Fyrirsjáanleiki og alþjóðlegt stofnanaumhverfi auka tiltrú og traust á íslensku viðskiptalífi og geta skapað tækifæri til áframhaldandi lífskjarasóknar,“ segir Halldór. Hann bætir við að hið sama gildi um annað evrópskt regluverk sem Ísland hefur tekið upp. „Þetta gildir hvort sem um ræðir löggjöf um fjármálaeftirlit, matvælaeftirlit eða önnur mál. Íslensk fyrirtæki sem framleiða vörur fyrir alþjóðamarkað, ekki bara fyrir Evrópumarkað, geta þannig tryggt að vörur þeirra séu gjaldgengar um allan heim þar sem þær uppfylla sömu kröfur og gerðar eru til framleiðenda í öðrum ríkjum.“ Hann segir að þriðji orkupakkinn snúist í grunninn um aukna samkeppni og þann ávinning sem hún skilar neytendum. „Samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni skapar frekar grundvöll fyrir verðlækkanir en verðhækkanir. Þar sem ríkir einokun höfum við séð umtalsverðar hækkanir en þar sem ríkir samkeppni er verðlagningin mun kvikari. Við sjáum líka að arðsemi fyrirtækja við einokun er hærri en þeirra fyrirtækja sem starfa í samkeppni á raforkumarkaði,“ segir Halldór í viðtalinu. 

Fjórði orkupakkinn felur í sér nýmæli

Sigurður segir að fjórði orkupakkinn, svonefndur vetrarpakki, feli í sér nýmæli ólíkt þriðja orkupakkanum. „Hann hefur breiðari skírskotun til umhverfis- og orkunýtnimála og kemur meðal annars inn á orkunýtni bygginga. Þegar talað er um að byggingar losi gróðurhúsalofttegundir er verið að vísa til losunar vegna þeirrar raforku sem knýr starfsemina áfram, sem dæmi má nefna hitun og kælingu bygginga. Þetta er vandamál í öðrum löndum því orkan þar er ekki endurnýjanleg í sama mæli og hér og framleiðsla hennar losar því gróðurhúsalofttegundir út í andrúmsloftið. Hér aftur á móti nýtum við endur­nýjanlega raforku til að knýja raftæki. Við notum heitt vatn til að hita húsin. Okkar sérstaða umfram suðlægari lönd felst líka í því að við þurfum ekki að kæla húsin. Þegar kemur að fjórða orkupakkanum þarf því sannarlega að halda sérstöðu Íslands til haga.“ Hann segir góðar fréttir að utanríkisráðherra hafi lagt stóraukna áherslu á hagsmunagæslu gagnvart Evrópusambandinu á síðustu misserum. „Við væntum þess að hagsmuna Íslands verði gætt og sérstöðu landsins verði haldið til haga þegar kemur að fjórða orkupakkanum.“