Fréttasafn2. jún. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Engin rök fyrir hækkun fasteignaskatta

„Við teljum að engin rök séu fyrir hækkun fasteignaskatta út frá aukinni eða bættri þjónustu sveitarfélaga. Hún kemur aðeins til vegna þess að ófremdarástand er á húsnæðismarkaði, sem hefur leitt til þess að húsnæðisverð hefur hækkað mjög hratt undanfarið,“ segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í fréttaskýringu Helga Bjarnasonar, blaðamanns, í Morgunblaðinu. Þar kemur fram að boðuð hækkun fasteignamats muni að óbreyttu hafa í för með sér þriggja milljarða króna hækkun á fasteignasköttum af atvinnuhúsnæði, fari úr 29-30 milljörðum í 32-33 milljarða. Samkvæmt útreikningum Þjóðskrár Íslands hækki fasteignamat á atvinnuhúsnæði um 10,2% um næstu áramót. 

Hækkun fasteignamats heimatilbúin hjá sveitarfélögunum

Ingólfur segir í Morgunblaðinu að hækkun matsins sé að vissu leyti komin til vegna þess að ekki sé nægjanlegt framboð af húsnæði, að hluta vegna skorts á lóðum. Hækkun matsins sé því heimatilbúin í sveitarfélögum og leiði síðan til hækkunar skatta ef ekki verði brugðist við með því að lækka álagningarprósentu.

Dregur úr samkeppnishæfni og kemur niður á vexti

Í fréttaskýringunni kemur fram að Samtök iðnaðarins reikni hækkunina 112% síðustu tíu ár, fyrir utan hugsanlega hækkun á næsta ári. Ingólfur segir í Morgunblaðinu að skatturinn sé orðinn mjög hár í alþjóðlegum samanburði og nefnir sem dæmi að sveitarfélög hérlendis taki í heildina 0,9% af landsframleiðslu en hlutfallið sé 0,2% í Noregi og 0,4% í Finnlandi og Svíþjóð. „Þetta dregur úr samkeppnisfærni okkar fyrirtækja og kemur niður á vexti þeirra.“ 

Morgunblaðið, 2. júní 2022.

Morgunbladid-02-06-2022