Fréttasafn8. jan. 2024 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki Orka og umhverfi

Enginn að andmæla að heimili og fyrirtæki séu sett í forgang

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í Sprengisandi á Bylgjunni ásamt Þorgerði Maríu Þorbjarnardóttur, formann Landverndar, um orkumál. Sigurður segir að staðan sé núna sú að við séum að brenna meiri olíu ár frá ári og ekki bara vegna þess að það vanti rafmagn sem sé ekki til, það sé samspil margra þátta. „Flutningskerfið er eitt vandamál hjá okkur, það er gamalt og er kominn tími á að uppfæra það. En síðan eru þetta líka léleg vatnsár þannig að það er þriðja árið í röð sem við þurfum að skerða orku og mögulega skammta. En síðan er það einfaldlega það að það vantar meira uppsett afl þannig að við höfum verið að benda á þessa stöðu og hvetja til þess að gripið verði til aðgerða.“

Sigurður segir: „Við höfum heyrt málflutning um það að í hvað má orkan fara. Ég hef ekki heyrt neinn núna á síðustu vikum og mánuðum sem hefur andmælt því að heimili landsins og fyrirtæki séu sett í forgang. Og er þá að vísa í frumvarp sem kom í þingið í nóvember og við þar á meðal tölum fyrir því að svo verði. Við höfum hins vegar gagnrýnt mjög útfærsluna og þingið hefur tekið það til gagngerrar endurskoðunar en hins vegar þá þarf einfaldlega meiri raforku hér á Íslandi. Stjórnvöld hafa líka mjög metnaðarfull áform bæði varðandi loftslagsmálin en líka það að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2040. Við höfum þá bent á það að til þess að ná því markmiði þá þurfi meiri raforku og við höfum fengið aðila til að gera verkfræðilega útreikninga á því og ég veit að Landvernd hefur látið skoða það líka.“

Iðnaðurinn eina útflutningsgreinin sem nýtir græna orku til verðmætasköpunar

Sigurður segir að niðurstöðunum beri algjörlega saman um stærðargráðuna þar. „Þannig að við erum sammála um það þó við séum ósammála um leiðirnar þangað. Við höfum líka bent á það að raforka á Íslandi er notuð til og reyndar orka notuð til verðmætasköpunar. Iðnaðurinn er raunar eina útflutningsgreinin sem nýtir græna orku til sinnar verðmætasköpunar í mestu magni meðan aðrar útflutningsgreinar nota fyrst og fremst olíu. Og þess vegna höfum við verið að benda á það að ef að hugmyndin er sú að taka raforku frá iðnaði, frá stóriðju, að þá er verið að færa hana til annarra greina. Það er skýrt dæmi um atvinnustefnu og er þá umræða sem þarf að taka í samfélaginu ef það er markmiðið.“

Þurfum að fara í umbætur til að nýta raforkuna í kerfinu betur

„Við erum sammála um meginmarkmiðin að tryggja almenningi á Íslandi og smærri fyrirtækjum og fyrirtækjum aðgengi að raforku,“ segir Sigurður. „Við höfum deilt um útfærsluna og margt sem við höfum gagnrýnt og má lesa í ítarlegri umsögn sem við sendum inn í þingið.“ Sigurður segir að samtökin hafi bent á að nú þegar séu til staðar að minnsta kosti fimm ólíkar leiðir til inngripa. „Og þar fyrir utan hefur ekki verið komið á raforkumarkaði á Íslandi. Umhverfisráðherra hefur reyndar veitt einu eða tveimur fyrirtækjum leyfi til slíkrar starfsemi. Ég held að það hljóti að vera af hinu góða því með slíkum markaði þá skapast allavega leiðir til að nýta raforkuna í kerfinu betur. Við hljótum að þurfa að fara í slíkar umbætur.“

Hér er hægt að hlusta á viðtalið í heild sinni.

Bylgjan, 7. janúar 2023.