Fréttasafn



2. nóv. 2018 Almennar fréttir

Erfitt að fá fólk með nauðsynlega þekkingu

Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri mennta- og mannauðsmála hjá SI, ræðir um nýja menntastefnu SI í Viðskiptablaðinu. Hún segir mikinn skort vera á einstaklingum með iðnmenntun og raungreina- og tæknimenntun í takt við þarfir atvinnulífsins og að félagsmenn SI beri sig illa vegna ástandsins á þeim forsendum að það sé erfitt að fá fólk með nauðsynlega þekkingu og að það sé jafnvel hamlandi fyrir þróun og uppbyggingu í viðkomandi atvinnustarfsemi. Hún segir að fyrst og fremst sé stefnt að því að fjölga þeim sem sækja um starfsmenntun að loknum grunnskóla. „Þetta hlutfall er mun lægra en í löndunum í kringum okkur. Ef við lítum á OECD-ríkin, þar sem hlutfallið er hæst um 35% í Þýskalandi, þá er hlutfallið hér um 17%, eða um helmingsmunur sem er alltof breitt bil. Við þurfum að grípa til aðgerða til að jafna þessi hlutföll og gera tækni- og iðnmenntun að álitlegum valkosti fyrir nemendur.“ 

Markmið SI er að 20% grunnskólanema velji starfsmenntun árið 2025 og árið 2030 sé það hlutfall komið upp í 30%. Ingibjörg segir sennilegt að nokkrar mismunandi ástæður séu að baki dræmri aðsókn í starfsmenntun og að skipta megi þeim helstu í tvo flokka. „Annars vegar má gera betur varðandi umgjörð og stjórnsýslu í iðn- og starfsmenntun og hins vegar er ímynd námsins og starfanna ábótavant. Við teljum mikið vanta upp á að tækifærum til náms og starfa sé miðlað nægjanlega vel til nemenda og þá erum við að horfa á grunnskóla fyrst og fremst, það þarf að ráðast að rót vandans.”

Á vef Viðskiptablaðsins er hægt að lesa viðtalið við Ingibjörgu Ösp. 

Vidskiptabladid-1-11-2018