Erindi og umræða um brunahólfandi innihurðir
Húsnæðis- og mannvirkastofnun, The Danish Institute of Fire and Security Technology - DBI og SI stóðu fyrir opnum fundi um brunahólfandi innihurðir í Húsi atvinnulífsins 25. september. Hátt í 30 manns sátu fundinn auk þess sem fundinum var streymt. Markmið fundarins var að undirbúa markaðinn fyrir komandi breytingar og varpa ljósi á þær áskoranir og tækifæri sem felast í nýju regluverki um brunahólfandi innihurðir.
Fundarstjóri var Kristján Daníel Sigurbergsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI. Hann benti á að fundurinn væri haldinn í ljósi mikilvægra breytinga sem eru í farvatninu varðandi staðfestingu, viðurkenningu og eftirlit með brunahólfandi innihurðum á Íslandi. Samkvæmt gildandi regluverki þarf að tryggja að framleiðendur fylgi evrópskum stöðlum sem muni hafa áhrif á íslenska framleiðendur. Mikilvægt væri að þeir fái nauðsynlegan stuðning í þessu ferli og hefur SI unnið náið með HMS að betrumbótum á eftirliti og leiðbeiningum til framleiðenda. Kristján lagði einnig áherslu á það ómetanlega framlag sem fulltrúar DBI hafa veitt við brunaprófanir og ráðgjöf á þessu sviði.
Fundurinn hófst á erindi HMS þar sem Ingvar Gýgjar Sigurðarson og Herdís B. Brynjarsdóttir ffluttu erindi þar sem þau fjölluðu um íslenska löggjöf á sviði mannvirkja og byggingarvara, með áherslu á hugsanlegar breytingar á lögum. Þau undirstrikuðu að breytingarnar miðuðu að því að tryggja að brunahólfandi hurðir uppfylltu allar þær ströngu formkröfur sem gerðar eru á evrópskum vettvangi.
Þá kynnti Anna Louise Petersen, Buisness Area Manager-Product Optimization & Market Access, starfsemi stofnunarinnar og þjónustu sem snýr að vöruþróun og markaðsaðgangi. Rikke Bille, Team Manager Fire Testing, fjallaði um mikilvægi og aðferðafræði brunaprófana brunahólfandi innihurða. Hún lýsti því hvernig brunahólfandi hurðir eru prófaðar til að tryggja að þær standist ströngustu staðla í öryggismálum.
Þórunn Sigurðardóttir hjá HMS flutti erindi sem bar yfirskriftina Framtíðarsýn HMS - Vegvísir að mótun rannsóknaumhverfis mannvirkjagerðar. Hún fór yfir mikilvægi þess að styrkja rannsóknarumhverfi mannvirkjagerðar á Íslandi og lagði áherslu á nauðsyn samstarfs innan iðnaðarins til að tryggja örugg mannvirki til framtíðar.
Að loknum erindum var boðið upp á umræður og spurningar úr sal, þar sem fundargestir fengu tækifæri til að ræða efnið nánar.
Kristján Daníel Sigurbergsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI.