Fréttasafn



12. mar. 2024 Almennar fréttir Mannvirki Orka og umhverfi

Erindi og vinnustofa um umhverfisskilyrði í útboðum

SI, Grænni byggð, Ríkiskaup og HMS héldu sameiginlega vinnustofu um umhverfisskilyrði í útboðum og verksamningum í Húsi atvinnulífsins miðvikudaginn 6 mars sl. Vinnustofan er liður í aðgerðaráætlun Byggjum grænni framtíðar um hvata til umskipta og ber aðgerðin heitið ,,Gefa út leiðbeiningar um vistvæn innkaup fyrir mannvirkjagerð og sýnidæmi um umhverfisvænar hæfiskröfur og valforsendur fyrir mannvirkjaframkvæmdir“. 

Í desember 2023 og janúar 2024 var send út könnun meðal félagsmanna SI og annarra aðila sem koma að mannvirkjagerð til að sjá núverandi stöðu á umhverfisskilyrðum í útboðum og verksamningum en nálgast má helstu niðurstöður í glærum fundarins að neðan. Vinnustofan var svo næst á dagskrá og var markmið hennar að ná fram sem breiðustu sátt um þau umhverfisskilyrði sem lögð yrði áhersla á í útboðum og verksamningum til að stuðla að loftslagsvænni innkaupum fyrir mannvirkjagerð og draga úr kolefnislosun, þ.e. hvaða leiðir væru hagkvæmastar en jafnframt áhrifaríkastar. Í framhaldinu er svo hugmyndin að nýta niðurstöðurnar til að útbúa hagnýt sýnidæmi um skilyrði, hæfiskröfur og valforsendur um umhverfismál í útboðum fyrir mannvirkjaframkvæmdir.

Elísa Arnarsdóttir, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, var fundarstjóri og byrjaði fundurinn á nokkrum örerindum til að varpa ljósi á það umhverfi sem unnið væri út frá.

  • Þóra Margrét Þorgeirsdóttir frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fór yfir forsendur og markmið aðgerðar 6.4 í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð.
  • Sveinbjörn Ingi Grímsson frá Ríkiskaupum fjallaði um svigrúm í opinberum innkaupum til að beita umhverfisskilyrðum innan lagalegra heimilda.
  • Áróra Árnadóttir framkvæmdastjóri Grænni byggðar fjallaði um niðurstöður úr svarkönnun um notkun á umhverfisskilyrðum í útboðum og verksamningum fyrir þjónustu- og vörukaup í mannvirkjageiranum á Íslandi.
  • Ragnar Ómarsson verkefnisstjóri Verkís hf. fjallaði um efni umhverfisskilyrða í norrænum fyrirmyndum og íslenskum hugmyndum.

Á vinnustofunni voru umhverfisskilyrði staðsett á gröfum út frá kostnaði og áhrifum til að draga úr kolefnislosun mannvirkja. Að lokum voru umhverfisskilyrðin forgangsröðuð. Mikill áhugi var fyrir vinnustofunni og fyrir áframhaldandi þátttöku í verkefninu.

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um aðgerð Byggjum grænni framtíðar.

Hér er hægt að nálgast glærur fundarins.

Mynd4_1710247435318

Mynd5_1710247455491

Vinnustofa1

Vinnustofa2